Ég hef hrifist af mörgu í lífinu og er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt (svo lengi sem ég er með annan fótinn á jörðinni), en það er þrennt sem mér líkar frábærlega: félagsskapur góðra vina, góður matur (sem einhver annar en ég elda) og að taka þátt í leikjum. Þetta sameinaðist fyrir stuttu þegar ég var svo heppin að vinna í Facebook-leik og átti kost á að bjóða allt að tíu vinum með mér út að borða. Vinkonurnar sem ég bauð þekktust ekki allar fyrir og sumar þeirra þekktu bara mig, en mér finnst einmitt líka mjög gaman að hrista saman fólk úr öllum áttum. Það var síðan gaman að sjá hvernig vinkonurnar röðuðust við borðið, við þrjár sem höfðum verið saman í grunnskóla settumst saman, þessar tvær sem munu búa úti á landi settust saman og svo framvegis. Einnig kom í ljós að fjórar okkar þekktu eigandann frá fyrri störfum. Úr varð hreint bráðskemmtileg kvöldstund sem ég mun minnast lengi. Og vonandi fæ ég sem fyrst aftur tækifæri til að hrista ólíka vini mína saman.

Núna þegar sumarið hefur bankað upp á samkvæmt dagatalinu, þó að veðrið haldi áfram að vera dyntótt dag frá degi og þrjóskist við að halda í kulda og snjó, hristir Séð og Heyrt af sér vetrardvalann og skellir sér í nýjan búning og framvegis mun Séð og Heyrt fylgja DV alla föstudaga.

Í Séð og Heyrt verður stefnan sett á að hrista saman efni um alls konar fólk, hvort sem það er með viðtölum, viðburðum eða öðru efni. Maður er manns gaman og við ætlum að hafa það skemmtilegt saman á síðum Séð og Heyrt. Ég tek vel á móti öllum ábendingum, um viðmælendur og viðburði sem eru fróðlegir, áhugaverðir og skemmtilegir, á netfanginu ragna@dv.is.

Með sumarkveðju kæru lesendur, Ragna

 

Séð og heyrt pistill

Related Posts