Nú verður gaman:

Hérna eru nokkrar góðar uppskriftir að skemmtilegum, fallegum og gómsætum eftirréttum sem munu eflaust hitta í mark á gamlárskvöld (og langt fram eftir nóttu). Slepptu risastóru marengstertunni og hafðu frekar hlaðborð af kræsingum.

 

kakaMINTUKEXKÖKUR!

 

Hráefni:

150 g sykur

150 g púðursykur

125 g smjör

2 egg

260 g hveiti

1 tsk matarsódi

1 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

40 g kakó

200 ml mjólk

12 mintukex

Hitið ofninn í 170°C. Hrærið sykur og smjör vel saman þar til blandan verður létt í sér. Bætið eggjunum út í og hrærið. Blandið þurrefnunum saman og hrærið saman við smjörblönduna ásamt mjólkinni. Setjið eina kexköku í botninn á hverju formi og sprautið deigi upp að miðju formsins. Bakið í 20 til 25 mínútur.

 

kaka2GANACHE!

 

Hráefni:

190 g 56% súkkulaði

160 ml rjómi

25 ml akasíuhunang

salt á hnífsoddi

 

Saxið súkkulaðið og setjið í skál. Setjið rjóma, hunang og salt í pott og hitið að suðu. Hellið um það bil fjórðungi af blöndunni yfir súkkulaðið og hrærið vel með sleif. Blandið afganginum af rjómablöndunni smátt og smátt saman við og hrærið stanslaust. Setjið kremið á með matskeið.

 

 

gedGLEÐIKONFEKT!

 

Hráefni:

1 dós „condensed milk“ (ég fékk mína í Kosti)

100 g smjör, mjúkt

2 tsk vanilludropar

450 g flórsykur

400 g kókosmjöl

300-400 g dökkt súkkulaði / mjólkursúkkulaði (ég notaði 70% súkkulaði)

100 g ristaðar möndlur

2 msk ljóst síróp

 

Blandið smjöri, kókosmjöli, flórsykri, mjólkinni og vanilludropum vel saman. Því næst bætið þið við sírópinu. Þekið form með smjörpappír eða smyrjið það og setjið blönduna í formið. Setjið það því næst í frysti í tvo tíma. Ristið möndlurnar í tuttugu mínútur í 175°C heitum ofni. Takið blönduna úr frystinum eftir tvo tíma og skerið hana í hæfilega stóra bita, ég hafði mína voðalega litla og krúttlega. Setjið möndlu/r á hvern bita og ýtið þeim aðeins ofan í. Bræðið súkkulaði og hjúpið bitann með súkkulaðinu. Ef þú vilt skreyta þarftu að gera það áður en súkkulaðið harðnar.

 

blasHESLIHNETUSTANGIR MEÐ TIMJANI!

 

Hráefni:

120 g hveiti

60 g smjör, mjúkt

50 g parmesanostur, rifinn

100 g heslihnetur, malaðar

2 tsk þurrkað timjan eða 4 tsk ferskt, saxað

1 tsk Maldon-salt, mulið

1 stórt egg, léttþeytt

1 eggjarauða, léttþeytt

 

Hitið ofninn í 180°C. Nuddið hveiti og smjöri saman í skál. Bætið osti, hnetum, kryddi, salti og eggi út í. Hnoðið deigið saman. Ef það er of þurrt má bæta 1 til 2 tsk af vatni út í. Fletjið deigið út í um það bil 15 x 20 cm ferhyrning. Það á að vera um 5 mm þykkt útflatt. Penslið deigið með eggjarauðu og skerið það í 5 mm þykkar stangir sem eru um átta til níu cm langir. Leggið stangirnar á smjörpappírsklædda bökunarplötu með spaða og hafið um það bil 1 cm bil á milli þeirra. Bakið í tólf til fjórtán mínútur eða þar til þær byrja að taka fallegan lit. Látið stangirnar kólna á kökugrind. Þær geymast vel í lokuðu íláti í allt að tíu daga. Úr þessari uppskrift fást um fjörutíu stangir en einnig er hægt að búa til kringlóttar, litlar kökur úr deiginu og borða þær til dæmis með góðum ostum.

 

hesleSNICKERS-STYKKI!

 

Hráefni:

350 g hnetusmjör

2 dl púðursykur

2 dl ljóst síróp

2-3 dl Rice Krispies

2 dl kókosmjöl

200-300 g súkkulaði

 

Setjið bökunarpappír í 20 x 25 cm form. Blandið púðursykri, hnetusmjöri og sírópi saman í potti og hrærið vel saman þangað til allt er bráðið. Takið pottinn af hitanum og blandið helmingnum af kókosmjölinu og helmingnum af Rice Krispies saman við. Hellið restinni af kókosmjölinu og Rice Krispies saman við og blandið vel saman. Hellið blöndunni í formið. Bræðið súkkulaðið og hellið því yfir blönduna. Setjið herlegheitin í ísskáp í hálftíma og skerið í sæta, litla bita. Nammi gott!

 

Related Posts