Nú þegar vetur er genginn í garð, enn á ný, er nauðsynlegt að huga vel að húð, hári og heilsu. Hér eru nokkur góð ráð til að koma í veg fyrir þurrk og önnur óþægindi sem eru fylgifiskar frostsins.

 

1. Það er freistandi að skella sér í sjóðandi heitt bað þegar maður kemur inn úr kuldanum. Heitt vatn getur þó þurrkað bæði húð og hár. Til að koma í veg fyrir það er gott að bæta nokkrum dropum af olíu, til dæmis möndlu- eða ólífuolíu, í baðvatnið. Einnig er aldagömul hefð að setja nokkra bolla af mjólk út í. Mjólkin inniheldur mjólkursýru sem fjarlægir dauðar húðfrumur en einnig prótín, fitu og vítamín sem næra húðina. Ef húðin er pirruð og rauð eða þjáist af exemi er líka gott að setja nokkra bolla af höfrum út í vatnið. Um leið og stigið er úr baðinu þarf svo að bera nóg af þykku kremi á allan kroppinn og fara  svo beint í þægileg náttföt.

 

2. Það skiptir miklu máli að fá góða næringu að innan sem utan allt árið um kring. Þegar fer að kólna er gott að borða fæðu sem er rík af omega-fitusýrum, svo sem feitan fisk, hnetur, fræ og avókadó, til að halda húðinni mjúkri og heilbrigðri. Einnig þarf að huga að vítamínum, þá sérstaklega C-vítamíni. Það hjálpar til við framleiðslu kollagens sem er eitt af meginbyggingarefnum húðarinnar. Meðal þeirra fæðutegunda sem eru ríkar af C-vítamíni má nefna sítrusávexti og dökkgrænt blaðsalat, eins og spínat.

 

3. Á veturna er nauðsynlegt að hafa varasalva meðferðis öllum stundum. Ekki eru þó allir varasalvar eins eða gera sama gagn. Til að koma í veg fyrir þurrk er gott að nota vaselín því það ver varirnar gegn veðurhörkum og minnkar rakatap. Það nægir þó ekki við varaþurrki því það er ekki nærandi. Þá er gott að grípa frekar í þykkan varasalva sem inniheldur býflugnavax eða lanólín en það er vax unnið úr kindaull. Ef varirnar eru svo mjög þurrar og farnar að flagna er gott að bera smávegis af vaselíni á varirnar og bursta þær mjúklega með gömlum tannbursta til að fjarlægja dauðu húðina.

 

4. Of tíður hárþvottur getur þurrkað bæði hár og hársvörð. Þurrum hársverði hættir til að flagna og mynda flösu en hann framleiðir einnig minni olíu fyrir hárið svo það verður oft mun meira rafmagnað og líklegra til að slitna. Á veturna er því gott að láta líða einum degi meira á milli hárþvotta og nota þurrsjampó á móti í staðinn. Það má heldur alls ekki sleppa hárnæringu og helst að nota rakagefandi hármaska einu sinni í viku til að halda hárinu í toppformi.

 

5. Flensan lætur yfirleitt á sér kræla á veturna og því erum við stöðugt að þvo okkur um hendurnar. Það ásamt frosti og vindi veldur því að húðin á höndunum byrjar að þorna. Gott ráð er að hafa handáburð alltaf við höndina en sérstaklega sniðugt er að hafa hann á vaskbrúninni. Þannig er alltaf hægt að bera á hendurnar strax eftir handþvott og bæta upp fyrir vökvatapið. Ef hendurnar eru þegar orðnar illa haldnar af þurrki er gott að bera þykkt krem á þær fyrir svefn og setja á sig hvíta bómullarhanska sem fást í apótekum því það hámarkar upptöku raka.

 

6. Það er nauðsynlegt að stokka aðeins upp í húðumhirðunni á veturna því þá eru þarfir húðarinnar oftast aðrar. Þó er óþarfi að umturna henni alveg. Raki er aðalatriðið og því á að forðast að nota vörur sem þurrka um of, til dæmis þær sem innihalda alkóhól. Einnig er sniðugt að bæta við andlitsolíu eða þykkara andlitskremi á kvöldin. Þannig nær húðin að jafna sig og endurbyggja sig á meðan við sofum og er tilbúin í kuldann á morgnana.

 

Umsjón: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts