Brunaði hraðbrautina vestan úr bæ til vinnu í Garðabæ og við Olísstöðina á bæjarmörkum varð ljóst að síminn hafði gleymst heima. Í kafaldsbyl og íshálku var fyrsta hugmyndin að snúa við, aka alla leið til baka til að eyðileggja ekki heilan vinnudag – öll símanúmerin í minninu, skilaboðin, tengslin við umheiminn.

Vann bug á símakvíða, hélt áfram og ákvað að vera símalaus fram að hádegi.

Þá var brunað um langan veg að ná í töfratækið sem lá heima í hvíld.

Og af hverju hafði maður misst?

Nokkrum tilkynningum um færslur annarra á Facebook. Áminningu frá Motus vegna vangreiddra krafna í Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Tilkynningu frá tveimur olíufyrirtækjum um tímabundinn afslátt að uppfylltum skilyrðum. Útsala í Evu. Og hótun frá símafyrirtækinu um lokun á öllu símalífinu ef ekki væri greitt innan tveggja daga.

En ekki eitt einasta símtal.

eir-217x300Næst þegar síminn gleymist verður ekki snúið við. Nær væri að snúa ávanabindandi notkun á iPhone og félögum upp í andhverfu sína og láta símann liggja. Tékka svo bara á honum við heimkomu á kvöldin.

Og hringja þá kannski í einhvern sem gerir lífið skemmtilegra. Eða bara heimsækja hann.

Eiríkur Jónsson

Related Posts