Nú er ég kominn á þann stað í lífinu að ég þarf að fara að huga verulega að skattamálum. Ég fæ verktakagreiðslur greiddar yfir árið, ásamt því sem ég er launþegi hjá Birtíngi. Nú fékk ég skattinn í bakið fyrr á árinu og skuldaði þeim ágætissummu. Þegar ég hringdi til þeirra og bað þá um að hjálpa mér með þetta fékk ég þau svör að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur því ég ætti peninga inni hjá skattinum sem myndu ganga upp í þessa skuld. Frábært. Ég fékk aftur móti enga almennilega útskýringu á þessu, bað svo sem ekki um hana því eins og ég sá þetta þá þurfti ég ekki að borga og allir hressir. Núna er ég aftur á móti kominn í smávesen.

Ég kíkti á skattmann í hádeginu og fór að grennslast fyrir um það hvað ég ætti að gera í verktakagreiðslunum fyrir þetta ár, sem eru töluvert hærri en á síðasta ári, en lítið var um svör. Ég sótti um nýtt skattkort, þar sem hitt hafði glatast, og sá allan þennan æðislega persónuafslátt sem ég átti inni en var þó ráðlagt að nota sem minnst af.

Ég fékk mjög loðin svör við því hvers vegna ég ætti ekki að nota allan þennan afslátt og fékk það á tilfinninguna að sá sem ræddi við mig væri ekki alveg með þetta á hreinu sjálfur. Einhvern veginn komst hann alltaf að sömu niðurstöðu. Ég á eftir að lenda í vandræðum með skattinn á næsta ári.

Persónuafsláttur er ekki jafnfallegur og hann hljómar. Skattleysismörk virka ekki þannig að þú þurfir ekki að borga skatt af þeirri upphæð sem er undir skattleysismörkum. Tryggingagjaldið er alls engin trygging og svona gekk þetta áfram.

Ég veit í raun ekki neitt um það hvernig skattamál virka og það er ekki mér að kenna. Ég spurði yndislegu konuna í þjónustuverinu hvort það væri ekki verið að bjóða upp á einhver námskeið varðandi þetta allt saman. Svo var ekki. Ég hef ekkert lært um skattamál á skólagöngu minni. Þegar maður spurði kennarann um skattamál þá var svarið alltaf eins: „Skattur á Íslandi er 37,5%, hann er aðeins lægri í þessu landi og aðeins hærri í þessu landi. Annars er ég á allt of lágum launum og borga of mikið í skatt en svona er þetta bara.“ Jahá!

Í staðinn fyrir lífsleikni væri ég til í að læra um skattamál. Í staðinn fyrir hljóðfræði, þar sem mér er kennt að tala íslensku, væri ég til í að læra um skattamál.

Þetta er í raun eitt af því mikilvægasta sem ég þarf að kunna og mun þurfa að þekkja þetta þangað til ég drepst. Eins og staðan er núna kann ég ekkert á þetta.

Eins og staðan er núna er ég fokkt!

 

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts