Kerry Washington er stórkostleg í hlutverki Oliviu Pope í þáttunum Scandal. Mikill kvennafans kemur að seríunni og nefna má að Shonda Rimes er framleiðandi, handritshöfundur og leikstjóri og sagan byggir að hluta á ævi Judy Smith sem sá um almannatengsl fyrir George H. W. Bush.

Kerry3

Í hlutverki sínu í Scandal.

Kerry fæddist í Bronx-hverfinu í New York. Móðir hennar, Valerie, er prófessor og ráðgjafi í menntamálum og faðir hennar, Earl, fasteignasali. Faðir hennar á ættir að rekja til þræla sem fluttir voru inn og látnir þræla á plantekrum í Suður-Karólínufylki. Móðurættin kemur aftur á móti frá Jamaika og settist að á Manhattan en Kerry hefur sagt að sá hluti hennar sé ákaflega blandaður. Meðal forfeðra í móðurætt eru Skotar, Englendingar, amerískir indíánar og afrískir þrælar sem fluttir voru til eyja í Karíbahafi. Meðal móðurfrænda hennar er Colin Powell, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Hennar fyrstu kynni af leiklist voru þegar hún tók þátt í sýningum The Taida sem er unglingaleikhús. Hún hóf nám í Spence School á Manhattan og útskrifaðist þaðan árið 1994. Þaðan fór hún í George Washington-háskólann og útskrifaðist Phi Beta Kappa árið 1998 með gráðu í bæði mannfræði og félagsfræði. En leiklistin hélt áfram að toga í hana svo hún sótti um og fékk inngöngu í Micheal Howard Studios í New York.

Hennar fyrsta hlutverk á hvíta tjaldinu var í sjónvarpsmynd sem gerð var fyrir ABC-sjónvarpsstöðina og hét Magical Make-Over. Í kjölfarið fylgdu þónokkur hlutverk í alls konar sjónvarpsefni, t.d. kennslumyndum, gamanþáttum samsettum af litlum sketsum og kvikmyndum í fullri lengd. Þeirra á meðal má nefna Our Song, Save the Last Dance og The Human Stain. Árið 2002 lék hún kærustu Chris Rocks í spennumyndinni Bad Company en sú mynd var nægilega stór til að vekja athygli á henni.

Næst kom Spike Lee-myndin She Hate Me en gagnrýnendur tóku eftir frammistöðu hennar í þeirri mynd og fóru um hana mjög lofsamlegum orðum. Næstu árin hafði hún nóg að gera en fékk eingöngu aukahlutverk. Meðal mynda sem sjá má henni bregða fyrir í eru Mr. & Mrs. Smith, Little Man, I Think I Love My Wife og The Last King of Scotland. Hún hafði þó ekki alveg sagt skilið við sjónvarpið því hún kom reglulega fram í gestahlutverki í þáttunum Boston Legal í hlutverki Chelinu Hall og sömuleiðis mátti reglulega sjá hana í þáttunum 100 Centre Street sem sendir voru út á kapalstöð.

En frægðin beið hennar og árið 2010 steig hún á svið á Broadway í leikriti David Manets, Race. Mótleikarar hennar voru James Spade, David Alan Grier og Richard Tomas. Sama ár var frumsýnd mynd Tyler Perrys, For Coloured Girls. Skömmu síðar kom fréttatilkynning um að hún yrði í hlutverki eiginkonu Djangos í mynd Quentins Tarantinos, Django Unchained. Sú mynd sló rækilega í gegn og Kerry voru allir vegir færir eftir það. Hún tók tilboði ABC-sjónvarpsstöðvarinnar um að leika hlutverk Oliviu Pope í nýrri þáttaröð. Þættirnir hafa fengið einstaklega góða dóma gagnrýnenda og áhorfendur eru yfir sig hrifnir. Þeir þykja endurspegla vel pólitískan hráskinnaleik og dansinn í kringum ímynd stjórnmálamanna.

Umræður um þættina hafa verið líflegar á Facebook, Twitter og Buzzfeed. Eitt af því sem vakið hefur athygli og ánægju er að Kerry er fyrsta blökkukonan til að leiða svo stóra og vinsæla þáttaröð. Þetta hefur orðið til þess að gagnrýnendur og blaðamenn í Bandaríkjunum hafa velt fyrir sér hvort runninn sé upp nýr tími og ekki skipti lengur máli hvort aðalhetjan er hvít eða svört.

Kerry4

Kerry kemst oft á lista yfir best klæddu konur í Bandaríkjunum bæði í eigin persónu og í hlutverki Judy Smith

Kerry hefur einnig hlotið mörg verðlaun fyrir frammistöðu sína þar á meðal NAACP-verðlaunin sem besta leikkona í dramaþætti og hún var kosin uppáhaldsleikkona lesenda TV Guide-tímaritisins og ritstjórar þess sæmdu hana titlinum sjónvarpsstjarna ársins Hún var svo tilnefnd til Emmy-verðlauna í fyrra fyrir leik sinn í annarri seríu Scandal-þáttanna og hlaut einnig tilnefningu til Golden Globe-verðlaunanna. Að auki hafa búningar Oliviu Pope vakið mikla athygli og hún kosin best klædda sjónvarpspersónan. Búningahönnuður þáttanna Lyn Paolo hefur sagt að hún hafi fengið þá hugmynd að leitast við að láta Oliviu Pope ávallt klæðast mjúkum, kvenlegum fötum sem skæru sig úr í þeim karlmannaheimi sem hún vinnur í.

Það er ekki eingöngu í fötum Oliviu Pope sem Kerry vekur athygli því hún var í öðru sæti á lista People Magazine yfir fallegasta fólk í heimi og Glamour útnefndi hana konu ársins. Þetta fór ekki fram hjá neinum né heldur það að hún komst á lista Forbes-tímaritsins yfir þá leikara sem hljóta hæst launin. Henni var boðið að koma fram í Saturday Night Live-þáttunum í nóvember í fyrra og þar sýndi hún á sér alveg nýja hlið og reyndist bráðfyndin og ágæt eftirherma. Kerry brá sér í hlutverk Michelle Obama, Opruh Winfrey og Beyoncé.

En Kerry er hæfileikarík og hún greip í fleira en bara að leika. Meðal annars má nefna að hún var aðstoðarleikstjóri og lék í tónlistarmyndbandi hipphopplistamannsins Common við lagið I Want You. Hún tók þátt í auglýsingaherferð L’Oréal árið 2008 ásamt Scarlett Johansson, Evu Longoria, Gong Li, Michelle Yeoh og Aishwaryu Rai. Þær eiga allar sameiginlegt að hafa fallegt og þykkt hár og þær komu fram í sjónvarpsauglýsingum og tjáðu sig um sínar uppáhaldshárvörur og einnig birtust myndir af þeim í öllum stærstu tímaritum.

Kerry5

Með manni sínum, Nnamdi Asomugha.

Kerry hefur mikinn áhuga á mannréttindamálum og hefur barist fyrir bættum kjörum ýmissa undirmálshópa í samfélaginu. Hún las til dæmis inn á heimildakvikmynd um unglingalúðrasveit í New Orleans, TBC-sveitina, en þessir ungu krakkar sneru aftur eftir að fellibylurinn Katrina hafði lagt borgina þeirra í rúst og tóku virkan þátt í uppbyggingu hennar að nýju. Hún hefur mikinn áhuga á bandarískri sögu og var með í gerð heimildarmyndar um sagnfræðinginn og mannvininn Howard Zinn. Howard gaf út merkilega bók, A People’s History of the United States, en þar fjallar hann um borgarastyrjöldina, réttindabaráttu svartra og baráttu friðarsinna í landi sínu. Hann hefur húmaníska og einstaka sýn á atburði. Howard var prófessor og kenndi lengi við háskólann í Boston.

Hún kom inn á mannréttindabaráttuna í erindi sem hún hélt við útskrift frá gamla háskólanum sínum, George Washington-háskólanum, í fyrra. Hún var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við sama tilefni en það þykir mikill heiður að vera boðið að ávarpa háskólanema á þennan hátt í Bandaríkjunum. Þess má einnig geta að hún tók þátt Lee National Denim Day árið 2007. Það var góðgerðaverkefni þar sem gallabuxnaframleiðandinn og nokkrar stjörnur tóku höndum saman til að safna fé til rannsókna á krabbameini í kvenlíffærum. Hún er einnig meðlimur í The Creative Coalition en það eru samtök listamanna úr öllum geirum listrænnar framleiðslu sem beita sér fyrir því að hafa áhrif á umræðu og framvindu mála í samfélaginu. Hún hefur einnig lagt V-deginum lið og talað fyrir breyttum viðhorfum og aukinni meðvitund um ofbeldi gegn konum í bandarísku samfélagi. Hún hefur sagt að auka þurfi meðlíðan milli manna til að draga úr ofbeldi.

Hún hefur þá skemmtilegu sérvisku að taka ævinlega með sér minjagrip um hverja persónu sem hún leikur. Stundum hefur þetta verið húsgagn úr sviðsmyndinni eða fatnaður úr búningasafninu. Kerry gifti sig nýlega körfuboltamanninum Nnamdi Asomugha. Brúðkaupið fór fram í smábænum Hailey í Idaho. Þau eiga saman fimm mánaða dóttur, Isabelle Amarachi.

Related Posts