Michelle Obama er þekktust fyrir að vera forsetafrú Bandaríkjanna en hún er meira en konan á bak við manninn. Hún er lögfræðimenntuð og málefni minnihlutahópa skipta hana miklu mál sem og fjölskylda hennar.

Michelle LaVaughn Robinson fæddist 17. janúar, 1964, í Chicago. Hún á einn bróður sem er rétt tæpum tveimur árum eldri en hún. Hún getur rakið bæði móður- og föðurættir sínar aftur fyrir borgarastyrjöldina í Bandaríkjunum og ættfeður hennar og -mæður voru þrælar í Suðurríkjunum. Ein formæðra hennar í móðurætt átti barn með hvítum manni en ekki er vitað hvort þau hafi átt í ástarsambandi eða hvort þObama2ungunin hafi komið til við verri aðstæður.

Michelle ólst upp í þriggja hæða húsi sem langömmusystir hennar átti og leigði fjölskyldan litla íbúð á þriðju hæðinni. Hún hefur sagt að uppeldi sitt hafi verið mjög venjulegt, þar sem móðirin vann heima en faðirinn úti og þau borðuðu saman við borðstofuborðið. Þegar Michelle fór í menntaskóla ákvað móðir hennar að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Það tók Michelle þrjá tíma á hverjum degi að fara í og úr skólanum en hún var talin einstaklega vel gefin og var sett í bestu bekkina og útskrifaðist með næsthæstu einkunn í sínum hópi. Eftir það ákvað hún að elta bróður sinn í Princeton-háskóla.

Hún skoraði á frönskukennara sína í háskólanum að breyta kennsluaðferðum sínum þar sem henni fannst að árangurinn yrði betri ef þau myndu tala meira saman á frönsku. Á meðan á náminu stóð tók hún þátt í sjálfboðavinnu fyrir Carl A. Fields Center en sú stofnun setur málefni nemenda í minnihlutahópum í forgrunn. Sjálfboðaliðarnir hjálpuðu til við að reka dagvistun fyrir börnin og buðu kennslu eftir skóla. Hún útskrifaðist frá Princeton með góðar einkunnir og hóf síðan lögfræðinám í Harvard. Á námstímanum barðist hún fyrir því að fleiri prófessorar úr minnihlutahópum væru ráðnir til skólans. Að auki vann hún á lögfræðiskrifstofu Harvard-háskólans og hjálpaði þar efnalitlum nemendum í húsnæðisvandræðum. Michelle er þriðja forsetafrúin með masters-gráðu en hinar tvær eru síðustu fyrirrennarar hennar.

Hún hóf störf á lögfræðistofu Sidley Austin eftir útskrift og þar kynntist hún Barack. Síðar fékk hún stöðu aðstoðarkonu borgarstjóra Chicago. Að auki var hún aðstoðarstjórnarnefndarkona á umhverfis- og skipulagssviði. Árið 1993 varð hún framkvæmdastjóri Chicago Office of Public Allies, sem er sjálfseignarstofnun sem hvetur ungt fólk til þess að vinna í samtökum sem ekki eru rekin í gróðaskyni og á ríkisstjórnarskrifstofum. Hún vann þar í fjögur ár og setti söfnunarmet í fjáröflunum fyrir stofnunina, sem enginn náði að slá fyrr en tólf árum eftir að hún hætti.
Frá 1996 vann hún hjá Háskólanum í Chicago. Fyrst sem aðstoðardeildarstjóri skrifstofu skólans en árið 2002 fór hún að vinna við spítala skólans. Hún vann þar meðfram kosningabaráttu eiginmanns síns en ákvað að vera aðeins í hlutastarfi á meðan. Hún gerði það svo hún gæti bæði eytt tíma með dætrum sínum og unnið við hlið manns síns. Samkvæmt skattaframtali árisins 2006 var Michelle með um 31 milljón króna í árslaun á meðan Barack var með tæpar 18 milljónir. Heildarárslaun þeirra voru hins vegar 112,5 milljónir króna þar sem hún var líka stjórnarmeðlimur hjá TreeHouse Foods og hann fékk höfundarlaun fyrir útgefnar bækur.

Obama4

Michelle með eiginmanni sínum og dætrum.

Náið og gott fjölskyldulíf
Michelle og Obama kynntust þegar henni var falið að kenna honum starf sitt á lögfræðiskrifstofu Sidley Austin en hann hafði fengið þar sumarstarf. Sagan segir að sambandið hafi byrjaði eftir hverfafélagsfund þar sem hann náði að sanna sig fyrir henni og fyrsta stefnumót þeirra var bíóferð þar sem þau sáu Spike Lee-myndina Do the Right Thing.
Þau giftu sig árið 1992 og eignuðustu þau fyrri dóttur sína, Maliu Ann, árið 1998. Þremur árum síðar fæddist Natasha. Móðir Michelle, Marian Robinson, flutti inn til þeirra í Hvíta húsið til að hjálpa til við uppeldið.

Michelle er mótmælaendatrúar en var alin upp sem meþódisti. Þau hjónin voru bæði meðlimir í Trinity United Church of Christ og giftust þar. Hins vegar tilkynntu þau árið 2008 að þau hefðu yfirgefið kirkjuna vegna þess að prestur kirkjunnar hefði komið með yfirlýsingar sem þau væru mjög ósammála og eftir það hefði sambandið við stofnunina orðið erfitt.
Eftir að þau fluttu til Washington D.C hafa þau verið meðlimir í nokkrum kirkjum. Michelle hefur hvatt fólk til þess að ræða pólitísk málefni í messum og sagt að það væri í raun enginn staður betri en kirkjan til þess. Ástæðan væri sú að pólitísk málefni væru yfirleitt ekki bara pólitísk heldur líka siðferðisleg, málefni sem tengdust sæmd, möguleikum mannkynsins og framtíð barnanna.
Michelle tók mikinn þátt í kosningabaráttu eiginmanns síns árið 2008 en hún hafði það sem reglu að vera aldrei meira en eina nótt í burtu frá dætrum sínum í hverri viku. Sambandið hefur auðvitað ekki ætíð verið dans á rósum og hafa störf þeirra beggja oft valdið miklu álagi. Barack sagði í annarri bók sinni The Audacity of Hope: Thoughts on Reclaiming the American Dream að oft hafi þau bæði verið svo þreytt og stressuð að lítill tími hafi gefist til að tala saman, hvað þá að styrkja sambandið. En þrátt fyrir krefjandi störf skipuleggja þau reglulega stefnumótakvöld og eiga þá góða kvöldstund saman.

Obama5

Málefni minnihlutahópa skipta hana miklu máli.

Talsmaður minnihlutahópa
Ekki er undarlegt að stærstur hluti vinnu Michelle þessa dagana snúist um að styðja eiginmann sinn og það sem hann er að vinna að. Hún hefur mikið unnið með minnihlutahópum og stendur við hlið Baracks í baráttunni við að bæta kjör ýmissa hópa í landinu. Hún hefur verið ötull talsmaður réttinda samkynhneigðra, trans- og tvíkynhneigðs fólks í Bandaríkjunum. Í kosningabaráttu Baracks árið 2008 stærði hún sig af því að maður hennar væri mikill stuðningsmaður samkynhneigðra og að hann hefði unnið að því að bæta réttindi þeirra. Meðal þess sem hún benti á var að hann hefði samið, ásamt öðrum, lagafrumvarp sem kvað á um að bannað væri að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar í Illinois. Síðar hefur hann stutt upprætingu hatursglæpa, sem byggðir eru á kynhneigð eða kynvitund, aukna rannsóknarvinnu á HIV og AIDS í forvarnarskyni og felldi Don’t Ask Don’t Tell-regluna úr gildi í bandaríska hernum (reglan snerist um að samkynhneigðir máttu vera í hernum svo lengi sem enginn vissi af kynhneigð þeirra).

Þegar Don’t Ask Don’t Tell-reglan var felld úr gildi beið Michelle ekki boðanna og bauð samkynhneigðum hermönnum að ganga í samtök sem heita National Military Families Initiative en þau snúast um að hjálpa fjölskyldum bandarískra hermanna á ýmsa vegu. Barátta hjónanna fyrir auknum réttindum samkynhneigðra er enn í fullum gangi og eru þau fyrst forsetahjóna, og Barack fyrsti forseti Bandaríkjanna, til að styðja giftingar samkynhneigðra opinberlega. Michelle hafði aldrei tjáð sig opinberlega um afstöðu sína í því málefni fyrr en sú ákvörðun var tekin. Hún sagði að þetta væri mjög mikilvægt málefni fyrir milljónir manna, og þau hjónin, því þetta byggði á því að allir væru jafnir og það væri gildi sem þau vildu kenna dætrum sínum.

Related Posts