Draugabanarnir snúa aftur á hvíta tjaldið:

Í HVERN ÆTLAR ÞÚ AÐ HRINGJA OG TAKA MEÐ Í BÍÓ?

Kvikmyndin Ghostbusters eða Draugabanarnir kom út árið 1984 í leikstjórn Ivan Reitman sem var einnig framleiðandi. Dan Aykroyd og Harol Ramis skrifuðu handritið og léku aðalhlutverk myndarinnar ásamt Bill Murray, Sigourney Weaver og Rick Moranis.

Myndin er löngu orðin klassík meðal kvikmyndaaðdáanda og einnig titillag myndarinnar, sungið af Ray Parker Jr. Frasa lagsins Who you gonna call? Ghostbusters! og I ain’t afraid of no ghost, kunna næstum allir.

Og í næstu viku er komið að frumsýningu á Íslandi á endurgerð myndarinnar, nánar tiltekið miðvikudaginn 20. júlí nk. og að þessu sinni eru konur í hlutverki draugabanana. Það eru stöllurnar Melissa McCarthy, Kristen Wiig, Kate McKinnon og Leslie Jones sem segja draugunum til syndanna og þrumuguðinn sjálfur, Chris Hemsworth, er í hlutverki aðstoðarmanns þeirra. Paul Feig heldur um leikstjórnartaumana og skrifar handrit ásamt Katie Dippold.

Fjóreykið er vel þekkt fyrir hlutverk sín í kvikmyndum og hafa þær farið á kostum í fyrri hlutverkum sínum og ættu bíógestir því að geta æft hlátur- og magavöðvana yfir myndinni.

Fjölmiðlar á Vesturlöndum birta nú hver af öðrum dóma sína um myndina og eru þeir flestir jákvæðir og lofa bæði myndina og leikarana í bak og fyrir.

„Fögnum! Nýja Ghostbusters-myndin er góð. Reyndar er hún mjög góð.“
-The Guardian

Þrátt fyrir þessar frábæru undirtektir frá gagnrýnendum tilkynnti Kína að kvikmyndin færi ekki í kvikmyndahús. En Kína er þekkt fyrir að banna sýningar á myndum sem fjalla um drauga og setti til að mynda sýningabann á myndina Pirates of The Caribbean: Dead Man’s Chest af þeirri ástæðu. Kínverskir embættismenn vilja þó meina að lítið hafi farið fyrir upprunalegu myndunum og því hafi þeir talið að enginn markaður væri fyrir myndina hjá kínverskum áhorfendum.

„Stelpurnar ráða ríkjum. Konur eru fyndnar. Sættið ykkur við það.“
– The New York Times

Það verður gaman að sjá hvernig íslenskir áhorfendur munu taka í myndina, það kemur í ljós miðvikudaginn 20. júlí næstkomandi.

Það er tilvalið að hringja í vin og kíkja í bíó.

Lestu Séð og Heyrt alla daga.

Related Posts