Hæ, ég heiti Anna og er snooze-fíkill – hæ, Anna.

Á hverju kvöldi horfi ég djúpt í augun á kærastanum mínum. „Ég er að fara að stilla klukkuna snemma í fyrramálið og ég ætla að vakna þá,“ segi ég ákveðin. Ég hugsa bjartsýn til morgunsins og sé hann fyrir mér í hillingum. Ég vakna – fer fram og bursta mig. Mála mig og slétti á mér hárið. Eftir það sest ég sæt og fín við morgunverðarborðið og fæ mér dýrindisegg og á meðan hlusta ég á morgunútvarpið á Rás 2 og hlæ léttilega að góðum bröndurum. Eftir það klæði ég mig í yfirhöfn og flotta hæla, kyssi kærastann bless og held af stað í vinnuna.

Nóttinn líður og ég sef eins og barn. Góðum svefni þakka ég lavender-olíunni sem ég læt á koddann minn og í brennarann inni í svefnherbergi.

Síðan rennur morguninn upp með sínum hversdagslega og leiðinlega blæ. Ég heyri vekjaraklukkuna hringja í fjarska og ég rumska. Sný mér á hina hliðina og þar titrar síminn og gefur frá sér leiðinlega kunnuglegt hljóð. Án þess að hugsa ýti ég á snooze-takkann. Áður en ég veit af hef ég „snoozað“ í klukkutíma. „Snoozið“ kemur á fimm mínútna fresti. Það þýðir að ég hef ýtt á takkann tólf sinnum. Þegar ég síðan vakna til meðvitundar þá uppgötva ég mér til mikillar mæðu að ég er orðin allt of sein.

Ég hoppa fram úr rúminu gríp ég það fyrsta sem ég sé í fataskápnum. Rýk fram á klósett og tannbursta mig. Hef að sjálfsögðu ekki tíma til að mála mig né slétta mig. Þannig að ég lít út eins og lukkutröll um hausinn og er með tannkremsfroðu í munnvikinu. Ég opna ísskápinn og bölva innihaldsleysi hans. Ákveð að lokum að grípa með mér eina plómu og abt-mjólk. Ég hef engan tíma til að láta í mig linsurnar og hvað þá að finna almennilega og hlýja yfirhöfn. Ég keyri blind, köld og útötuð í tannkremi í vinnuna og kem móð og másandi og sest fyrir framan tölvuna.

Góð ráð óskast við snooze-fíkn minni.

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts