Ingólfur Þór Hlynsson (39):

Séð og Heyrt fjallaði um Gleðisveitina Ingólf fyrir12 árum síðan. Ingólfur Þór Hlynsson var aðalsprautan í sveitinni og var um tíma titlaður sem magnaðasti umboðsamaður landsins. Ingólfur segir þetta hafa verið skemmtilegt verkefni en meira var um grín en alvöru að ræða.

 

Flipp „Þetta var svolítið sumarflipp. Hálfdán vinur minn var að vinna hjá SkjáEinum og ég hafði komið í Djúpu laugina hjá þeim og það gekk vel þannig að hann bað mig um að vera með sjónvarpsþátt sem snerist um að búa til hljómsveit,“ segir Ingólfur um upphaf Gleðisveitarinnar.

„Ég hóaði bara í stráka úr mismunandi áttum sem þekktust ekkert. Við hittumst viku fyrir fyrsta þátt og áttum bókað gigg á sjómannaballi á Norðfirði, þá hittist hljómsveitin í fyrsta skipti og það var bara talið í.“

„Það var mjög lítil beinagrind, við smíðuðum þetta bara í beinni og sáum til hvað gerðist. Þetta var alveg frábært sumar fyrir okkur alla. Keyrðum hringinn um landið og upplifðum það að spila á mörgum stöðum. Fórum á Grundarfjörð þar sem SkjárEinn náðist til dæmis ekki og enginn vissi hverjir við vorum en svo var fullt hús í Sjallanum. Þetta var þrælfínt sumar. Ferðuðumst um á gömlu Stuðmannarútunni þannig að það var fílingur í þessu.“

Komu naktir fram

Gleðisveit Ingólfs kunni svo sannarlega að vekja athygli á sér og komu strákarnir meðal annars stundum naktir fram.

Séð og Heyrt fyrir 12 árum

GÓÐUR: Gleðisveit Ingólfs var ekki langlíf en Ingólfur segir þetta hafa verið skemmtilegt á meðan því stóð.

„Það var ýmislegt sem gerðist í þáttunum. Við gerðum mikið fyrir frægðina eins og að koma naktir fram. Menn voru í raun tilbúnir að gera allt fyrir grínið. Bassaleikarinn spilaði meðal annars nakinn á fyrsta sjómannaballinu fyrir framan fullt af eldra fólki. Menn víluðu ekkert fyrir sér.“

„Þetta hætti svo bara þegar þátturinn hætti. Þetta var bara sumarævintýri, strákarnir hafa samt margir hverjir haldið áfram í tónlist og gert ágætis hluti þar.“

„Ég er hættur í þessu núna, maður er allavega hættur að koma fram nakinn. Ég hef haldið nokkur böll í gegnum tíðina en er núna bara að einbeita mér að vinnunni. Ég var nú samt að vinna á þessum tíma en tók mér bara sumarleyfi og skellti mér í þetta. Þetta var stuð.“

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts