GERÐI BRÚÐARKJÓL ÚR BLÖÐRUM!

Blöðrulistamaðurinn Daníel Hauksson (23):
Daníel Hauksson er einn af forsvarsmönnum Blaðrarans.is sem býður upp á fjölbreyttar og skemmtilegar blöðruskreytingar fyrir öll tilefni.

Skemmtilegt! „Ég rakst bara á poka með blöðrum og pumpu til sölu og ákvað að prufa þetta, síðan varð ég bara ástfanginn,“ segir blöðrulistamaðurinn Daníel Hauksson um hvernig hann endaði í blöðrubransanum og heldur áfram. „Ég varð alls ekki góður í þessu strax og það sprungu margar blöðrur þegar ég var að byrja. Ég lét það þó ekkert stoppa mig og hef verið í þessu í fjögur ár.“ Daníel segir mest að gera á sumrin. „Það er brjálað að gera yfir sumartímann en yfir háveturinn er ég minna í þessu. Ég er líka að vinna í sirkus og það hjálpar til.“ Þá segist hann einnig stunda miklar æfingar. „Við erum allir duglegir að æfa einir auk þess sem við hittumst einu sinni í viku og æfum saman.“ En hvað skyldi vera vinsælast? „Það sem er kannski vinsælast eru blöðrusnúningar fyrir hátíðir og annað slíkt. Svo fáum við einnig svolítið af barnaafmælum og veislum.“ Þá segir hann mikla vinnu að gera brúðarkjól sem eingöngu er úr blöðrum. „Það var rosalega gaman að sjá viðbrögð fólks þegar það var komin manneskja í kjólinn og við hjá Blaðraranum.is ætlum að gera meira af því að setja manneskjur í kjólinn. Það er mikið að gera núna og við erum búnir að vera úti um allan bæ. Við ætlum að reyna að vera svolítið áberandi í sumar,“ segir Daníel hress að lokum.

Related Posts