Huginn Þór Grétarsson (36) í jólabókaflóðinu:

Huginn Þór Grétarsson ætlar sér að taka jólabókaflóðið með trompi. Óðinn Þór er ritstjóri útgáfufélagsins Óðinsauga ásamt því að vera rithöfundur sjálfur. Huginn segir Óðinsauga komið til að vera og að nýtt stórveldi sé fætt í útgáfubransanum.
Gamansamur „Ég held ég sé með sjö bækur í gangi núna, ein er í samstarfi við finnskan rithöfund sem er nú kærastan mín. Við vorum að gera samning í Finnlandi núna um daginn og þar kemur bókin út. Svo eru tvær bækur sem koma út í Serbíu og ein sem kemur út í Slóveníu,“ segir Huginn Þór.

Huginn Þór, bókaútgáfa, Óðinsauga

ALLT Á FULLU: Það er nóg að gera á lagernum hjá Hugin enda jólin á næsta leiti og því þarf hann að vera klár með allar bækurnar.

„Það er enginn smáslatti sem ég er með af bókum núna, það er ein sem heitir „Hugdjörf hetja“ sem er svona gamansöm gagnrýni á karlrembu og svo einnig „Örkin hans Nóa“, það er svona raunsæisútgáfa af því hvernig Nóa hefði gengið að koma öllum þessum dýrum í örkina og það fer auðvitað smávegis úrskeiðis þar. Þetta er allt saman í gamansömum stíl, eins og til dæmis bókin „Herra T og kjúklingurinn hans sem heitir Asni“. Þetta er bók eftir mig og kærustuna mína, Maaria Paivinen.

Kynntust á bókamessu

Huginn hefur verið duglegur undanfarið að gefa út bækur og nú er hann kominn með samstarfsmann sem er einnig hans heittelskaða.
„Ég og Maaria kynntumst í Frankfurt fyrir rúmu ári á bókamessu. Bókin hennar var að koma út og Finnland var í forgrunni í fyrra á þessari messu. Finnland var svona „guest of honor“ í fyrra og þannig kynnist ég henni. Svo var hún að selja bókina sína „Mig hungrar, mig þyrstir“ sem mun koma út á íslensku, og er einnig nýkomin út á þýsku,“ segir Huginn sem er enginn nýgræðingur í bókabransanum.
„Ég er búinn að skrifa mjög lengi, fyrsta bókin kom út árið 2006 og svo komu fimm barnabækur út eftir mig á árinu 2008. Ég er búinn að gefa út um 30 bækur sjálfur, mikið af barnabókum og til dæmis jólasveinaþrautabækur sem eru þrettán þrautir jólasveinanna. Þetta eru bækur sem hafa verið að detta inn á metsölulistanna og ég er mjög stoltur af því. Þetta hefur gengið mjög vel sem er gaman, maður getur ekkert kvartað. Það að getað lifað af því að vera rithöfundur er frábært.“

Kominn til að vera

„Ég er í raun í þessu öllu, er með þjóðsögur líka þar sem ég vík aðeins frá þessum gamansama stíl. Það er til dæmis að koma út bók um Lagarfljótsorminn. Ég er að endursegja gömul og góð ævintýri og þau hafi vakið upp mikla lukku,“ segir Huginn sem hefur nóg að gera.
„Ég er bara kominn til að vera. Þetta er alveg frábær iðja og ég nýt þess alveg í botn. Ég er að ritstýra líka hjá Óðinsauga ásamt því að vera höfundur þar. Óðinsauga er að gefa út 39 bækur í ár. Ég held að það séu ekki margir útgefendur sem eru að gefa út svona margar bækur nema þá kannski Forlagið. Við erum stórveldi í íslenskum útgáfubransa,“ segir Huginn og hlær.
„Óðinsauga er það útgáfufélag sem er að gefa hvað flestum nýjum höfundum tækifæri, við erum alltaf að leita af nýju og hæfileikaríku fólki. Við erum að fara að gefa út nokkrar frábærar bækur eins og til dæmis Glútenfrítt líf og síðan „Þegar Gestur fór“ sem er framhaldsbók eftir Helga Ingólfsson, það er mjög mikið búið að spyrja um hana en hún er ekki komin út. Þetta er 520 blaðsíðna bók um lífið í Reykjavík hér á árum áður. Þetta er mjög spennandi bók sem ég hlakka mikið til að komi út,“ segir Huginn.

Related Posts