Óttar Guðmundsson (66) er bakhjarl eiginkonunnar, Jóhönnu Þórhallsdóttur (57), í tónlistinni:

 

Söngkonan Jóhanna V. Þórhallsdóttir hefur sent frá sér plötuna Söngvar á alvörutímum. Þótt hún syngi á alvörutímum er hún glaðvær og allra kvenna hressust og mætir hverjum degi með bros á vör. Í tónlistarútgáfunni nýtur hún stuðnings eiginmannsins, Óttars Guðmundssonar geðlæknis, og á móti hlúir hún að geðheilsu eiginmannsins með dyggri aðstoð meistara Megasar.

Rokk og rómantík Líf söngkonunnar Jóhönnu V. Þórhallsdóttur hefur lengst af snúist um tónlist og nú hefur sköpunarþrá hennar fengið útrás með þriðju sólóplötunni, Söngvar á alvörutímum. Á plötunni syngur hún eigin lög og annarra, þar á meðal nokkur lög eftir bankamanninn og revíuskáldið Guðmund Sigurðsson. Guðmundur, heitinn, var faðir eiginmanns Jóhönnu, Óttars Guðmundssonar geðlæknis, sem styður dyggilega við bakið á eiginkonunni í tónlistinni. Hún sinnir aftur á móti sálgæslu eiginmannsins og nýtur þá aðstoðar Megasar sem er tíður gestur á heimili þeirra hjóna.

SAMLYND HJÓN: Gleðin er við völd heima hjá Jóhönnu og Óttari þar sem tónlistin ómar og mikið er spjallað og pælt.

Lærir trikkin

„Þegar maður er giftur geðlækni verður maður smám saman geðlæknir og lærir trikkin,“ segir Jóhanna hlæjandi. „Ég er sko með hann í meðferð, enda verður hann einhvers staðar að losa, blessaður, þegar hann er búinn að hjálpa öðrum. Þá tökum við Megas við honum og hann fær að tappa af.“

 

Fjölskylduvinurinn

GÓÐUR GESTUR: Megas lítur oft inn hjá Óttari og Jóhönnu og þá er glatt á hjalla.

GÓÐUR GESTUR:
Megas lítur oft inn hjá Óttari og Jóhönnu og þá er glatt á hjalla.

Jóhanna segir Megas vera mikinn vin þeirra hjóna, hann sé tíður gestur hjá þeim og hún eigi hann að til skrafs og ráðagerða þótt ofsagt sé að hann sé tónlistarlegur ráðunautur. „Ég var nú reyndar með eitt lag um geðdeildina eftir hann en hætti við að hafa það á þessari plötu. Ég á það bara inni. Ég hef sungið lög eftir hann með öðrum hópi og hann er góður vinur okkar, hlustaði á þetta og stappaði í mig stálinu. Óttar er svo auðvitað aðalbakhjarlinn minn og ég er með fullt af textum eftir pabba hans á plötunni.“

Topplið

Jóhanna segir plötútgáfu einyrkjans vera brjálaða vinnu en þetta sé skemmtilegt stúss og ekki spilli fyrir hversu frábærum mannskap hún vinni með. „Ég hef unnið með öllum þessum frábæru músíköntum áður og þetta eru súperkallar,“ segir hún um þá Kjartan Valdemarsson, Gunnar Hrafnsson, Einar Val Scheving, Sigurð Flosason og finnska harmonikuleikarann Matti Kallio, sem sér einnig um útsetningar fyrir hana. „Síðan kemur Egill Ólafsson og syngur og dansar með mér einn tangó. Við vorum saman í menntaskóla, sungum þar saman í kór og á Hrekkjusvínaplötu en ekkert síðan þá.“

Listmálarinn

MYND AF MANNI: Jóhanna hefur málað í fimm ár og að sjálfsögðu er Óttar notaður sem fyrirsæta.

Fyrir fimm árum fékk Jóhanna sér trönur og byrjaði að fást við listmálun. „Það er hin hliðin á mér og málaralistin kveikir á nýjum hlutum hjá manni,“ segir listmálarinn og söngkonan sem er þegar komin með efni fyrir næstu plötu. „Maður er bara svona og heldur alltaf áfram. Þetta er bara í karakternum og ég er bara þessi týpa sem þarf alltaf að vera að semja eða pæla. Ég er alltaf með eitthvað í hausnum.“

Related Posts