Netið er fullt af alls kyns rusli sem almenningur skoðar og annaðhvort hlær eða grætur yfir eða hvorutveggja. Jarðarbúar vafra um hið dularfulla Internet þar sem það gleymir sér í hverju sem grípur athyglina hverju sinni.  Við annaðhvort hlæjum yfir fyndnum og heimskulegum kattarvídeóum eða grátum yfir vídeói sem sýnir móðurástina í sinni fegurstu mynd.

Internetið býr þó stundum yfir einhverju sem getur breytt lífsviðhorfi manns, frekar strangt til orða tekið en jú það getur gert það. Ég lenti um daginn á myndbandi þar sem ungur maður íklæddur fagurrauðri hempu hélt ræðu yfir nýútskrifuðum og saklausum stúdentum í ónefndum háskóla í Bandaríkjunum. Ég hugsaði með sjálfri mér; jæja er þetta þá enn eitt fíflið sem ætlar að predika yfir aumingja fólkinu og leggja því lífsreglurnar eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Maðurinn sem gekk að púltinu var með reytt og tætt hárið og með kassalaga gleraugu með dökkri umgjörð sem römmuðu inn mosagrænu augun. Hann tók sér hikandi stöðu og opnaði kjaftinn. Meira man ég eiginlega ekki því ég fór í hálfgerða leiðslu. Þarna sat ég fyrir framan tölvuna í myrkrinu í svefnherberginu mínu og fylgdist með hverju einasta orði sem kom út úr munninum á þessum síðhærða manni með spangargleraugun.

Það sem var svo yndislegt við þennan fyrirlestur var að hann var hreinskilinn við fólkið sem sat úti í sal. Í staðinn fyrir að fylla hausinn á þessum sakleysingjum með ýmsum lofsyrðum um lífið sem biði þeirra handan grámyglulegra skólaveggjanna þá benti hann þeim á hörkuna sem þar væri.

Hárprúði maðurinn benti nýútskrifuðum háskólastúdentum á það að áður en við vissum af þá værum við dauð. Þetta væri óumflýjanleg en í raun rómantísk staðreynd. Síðan kom hann með grundvallarreglur fyrir því hvað ætti að gera við þetta svokallaða líf. Reglurnar voru níu talsins og hver annarri betri. Grundvallaratriðin í ræðunni voru eitthvað á þá leið að maður ætti að fylla lífið og læra eins mikið um eins marga hluti og maður gæti.

Þegar ég skrifa þetta niður þá sé ég að þetta er enn ein vitleysan sem Netið fyllti mig af og fékk mig til að gapa yfir. Síðhærði maðurinn sem spangargleraugun kom því bara svo vel til að skila að hann fékk mig til að taka stund af mínum grámyglulega mánudegi til að hlusta á sig.

Related Posts