Fyrir nokkrum dögum las ég status hjá fbvinkonu minni þar sem að hún gerir grín að eigin göllum og auðvitað fannst mér alveg tilvalið að setjast niður og gera það sama og fara yfir hversu ófullkomin ég er og hvort að ég geti einhverju breytt og hvort að ég vilji það og nenni yfirhöfuð.

*Ég er svakalega símatýnd, er oftast með slökkt á hringingunni, vandi mig á það fyrir löngu til að fá svefnfrið um nætur, en gleymi svo alltaf að kveikja á honum þegar ég vakna. Á Snapchat er ég áhorfandi, ekki þátttakandi, veit varla hvað Instagram er, en veistu mér er nákvæmlega sama. Ég vil frekar upplifa og njóta á staðnum í stað þess að láta alla vita hvar ég er akkúrat hverja mínútu.
*Ég tala um allt við alla, nema stjórnmál mér leiðast þau svakalega og hef lítið vit á bílum, þó ég viti smá. Ég dett alltaf í spjall við bláókunnugt fólk í röðinni í Bónus eða öðrum röðum og mér finnst það miklu skemmtilegra en að fletta Vikunni eða öðrum blöðum sem eru við kassaröðina. Þetta gerist líka í útlöndum. Ég get talað við marga í einu um allt og ekkert og stundum tala ég jafnvel þó að enginn sé að hlusta.
*Mér finnst miklu betra að hringja í karlmann, þá oftast Palla bróðir þegar þarf að negla, bora, festa, flytja, bera þungt dót eða eitthvað annað sem mér finnst vera karlmannsverk og er alveg sama þó að það sé eitthvað kynjamisrétti. Palli gerir þetta líka mun betur og hraðar en ég myndi nokkru sinni gera og svo er hann líka svo skemmtilegur og alltaf gaman að hitta hann.
*Mér leiðist að versla föt, ég veit, ótrúlegt en satt. Mátunarklefarnir eru litlir og maður svitnar yfir þessu öllu og hárið verður að samfarahnakka eftir 2-3 mátanir. Hver nennir að labba svoleiðis um í Kringlunni? Ekki ég, á líka næstum því nóg af fötum.
*Mér finnst fallegir skór æði, en sama hér, leiðist að máta og geng yfirleitt í 1-2pörum þar til þau eru búin. Þá neyðist ég til að versla fleiri.
*Ég kann ekkert að farða mig ekki neitt. Nota mesta lagi fimm hluti, sama hvort það er út í búð eða á djamm. Kinnalitur, augnskuggar og allt hitt er eins og kínverska fyrir mér, spennandi en pínulítið skeirí.
*Ég fer alltaf að lúlla með meikið á mér og ætti að vera mun duglegri samkvæmt öllum greinum sem fjalla um viðhald konulíkamans að þrífa, skúra, skrúbba, plokka, tæta, rífa, skafa mig hátt og lágt en nei nenni því ekki, langar frekar að lesa bók.
*Sjónvarpið mitt er ótengt og hefur verið þannig í mörg ár. Þetta er samt örugglega voða lítið mál og kannski ég hringi í Palla og biðji hann að redda þessu fljótlega.
*Ég man allt og klárlega er það galli sem og gríðarlegur kostur, það eru verulegar líkur til að ég muni hvar við hittumst fyrst, hvernig þú varst klædd/ur, hvað þú sagðir eða ekki, blikið í augunum og hvernig mér leið þegar ég kynntist þér.
*Þetta minni er þó valkvætt að nokkru leyti þar sem að ég man til dæmis alla lagatexta 80´s tímabilsins, en get ómögulega munað hvort vantaði mjólk heima þegar ég stend fyrir framan kælinn í Krónunni.

En þrátt fyrir allt þetta og örugglega ótal margt fleira sem ég valdi að gleyma að minnast á, vil ég trúa því að þrátt fyrir alla þessa galla, hafi ég líka einhverja kosti. Kannski ég fjalli um þá síðar, ef ég man eftir því.

sh-1620-46-96376-683x1024

Ragna Gestsdóttir

 

 

Related Posts