Í FYRSTA SINN Á HVAMMSTANGA

Allir þekkja Helga Björns og þá ekki síst fólkið á landbyggðinni sem syngur lög hans af hjartans lyst á öllum mannamótum. Og því er gaman þegar Helgi ferðast um landið með tónlist sína og sögur í tilefni af 30 ára tónlistarafmæli sínu.

„Ég hef aldrei spilað hér áður,“ segir Helgi Björns eftir sunnudagstónleika á Hvammstanga sem voru vel sóttir af heimamönnum og bændum og búaliði í nærsveitum. „Það voru allir kátir og glaðir og þetta var skemmtilegt.“

Með Helga í för er tónlistarmaðurinn Guðmundur Óskar Guðmundsson og saman fara þeir yfir langan og gifturíkan tónlistarferil Helga og þar kennir ýmissa grasa eins og alþjóð veit. Tveir saman á sviðinu með blöndu af tónlist og sögum. Og áhorfendur fá að taka þátt.

„Þetta er fimm vikna túr sem slúttað verður í Reykjavík eftir mánuð og þá í Gamla bíói ef húsið verður klárt,“ segir Helgi sem gefur ekki tommu eftir á lengsta tónleikaferðalagi sem hann hefur farið í.

 

Related Posts