Guðrún Reynisdóttir jógakennari hélt samviskusamlega utan um allar þær glósur sem hún punktaði hjá sér á meðan hún stundaði jóga og þegar hún byrjaði að læra að vera kennari. Núna hafa þessar glósur orðið að bók.

 

Jóga Jóga

SKIPULÖGÐ: Guðrún var dugleg að glósa niður hjá sér allan þann fróðleik sem hún aflaði sér sem tengdist jóga.

Lagleg og liðug „Ég útskrifaðist fyrir ári síðan sem jógakennari og hafði þar á undan verið mikið að stunda jóga,“ segir jógakennarinn og bókarhöfundurinn Guðrún Reynisdóttir en hún hefur nú gefið út sína fyrstu bók sem kallast Jógahandbókin og er samansafn af þeim fróðleik sem hún hefur aflað sér síðustu ár. „Þegar ég byrjaði í jóga þá var ég dugleg að fara til mismunandi jógakennara og þegar ég var ekki í jógatímum þá var ég á YouTube að horfa á vídeó þar. Þannig að ég var að sífellt að læra eitthvað nýtt“

Fyrir ári síðan útskrifaðist Guðrún sem jógakennari og byrjaði um leið að kenna tíma sem fljótt urðu vinsælir. „Ég ákvað að setja saman bók fyrir sjálfan mig sem yrði mitt hjálpartæki sem jógakennari. Bókin innihélt allan þann lærdóm sem ég komst að á hverjum degi og líka þær spurningar sem nemendur mínir voru að spyrja mig að. Til dæmist hvort til væru einhverjar sérstakar æfingar sem væru góðar fyrir kvilla eins og brjósklos eða grindargliðnun. Eftir nokkrar vikur var ég komin með ágætisvinnubók úr öllum glósunum mínum.“

Einn daginn sá vinkona Guðrúnar hana vera að fletta í bókinni og lýsti strax yfir áhuga sínum á að eignast eina slíka. „Hún hvatti mig til að leita til útgefanda þannig að ég sló til og var komin með samning daginn eftir,“ segir Guðrún og hlær.

Bókin var að mestu leyti tilbúin fyrir utan örlitla fínpússun. „Þessi bók varð til úr 14 litlum minnisbókum. Þetta er handbók fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Þarna færðu allar upplýsingar sem þú þarft um hverja stöðu fyrir sig. Þarna er ég að lýsa tæplega 100 stöðum nákvæmlega og skrifa skemmtilegan fróðleik í kringum þær.“

Guðrún lagði mikið upp úr því að ekkert væri „fótósjoppað“ í bókinni. „Við fyrirsæturnar í bókinni lítum út eins og 95% kvenna. Ég vildi hafa þetta raunhæft og sýna að jóga er fyrir alla.“

Related Posts