Kiddi Bigfoot (50) spilar tónlistina til að hreyfa við fólki og gleðja:

Kristján B. Jónsson betur þekktur sem Kiddi Bigfoot hefur haldið uppi stuðinu hjá fólki á dansgólfinu í meira en þrjátíu ár. En hann hóf plötusnúðaferilinn aðeins 14 ára gamall á skemmtistaðnum Heaven í Gautaborg. Hjarta Kidda hefur einnig þurft á smá stuði að halda, en hann hefur verið háður gangráði frá árinu 2001. Stuttu eftir fimmtugsafmælið lagðist hann inn á spítala og fékk nýjan gangráð og er því fullhlaðinn og rétt stilltur fyrir seinni hlutann af lífinu með unnustunni Eyju, en þau ætla að gifta sig á Þjóðhátíð á næsta ári.

KIDDI KÓNGUR Kiddi Bigfoot er og verður konungurinn í dj-bransanum.

KIDDI KÓNGUR Kiddi Bigfoot er og verður konungurinn í dj-bransanum.

Kærastan Eyja Bryngeirsdóttir er menntaður leikskólakennari og vinnur sem deildarstjóri á leikskóla og stefnir á frekara nám á því sviði. Turtildúfurnar hafa verið saman í rúmlega tvö ár og er brúðkaup  fyrirhugað á næsta ári og plötusnúðurinn er Þjóðhátíðin sjálf. Brúðkaupið fer fram í hádeginu á föstudeginum fyrir setningu Þjóðhátíðar. Hugmyndin var að gera það í ár en tíminn flaug frá turtildúfunum þar sem að salan í Herjólf hefst strax í janúar og boðskortin þurfa því að fara í póst með góðum fyrirvara.

 

Viðurnefnið er ekki vegna stórra fóta

Margir halda að viðurnefnið Bigfoot sé vegna fótastærðar en hið rétta er að það á rætur sínar að rekja til peysu sem afi minn og nafni átti,” segir Kristján B. Jónsson sem er í daglegu tali nefndur Kiddi Bigfoot.

Kiddi hóf ferilinn einungis 14 ára gamall í Svíþjóð en hann var búsettur þar um nokkurra ára skeið sem barn. „Andrea systir mín sagði að ég þyrfti að fá mér viðurnefni eða kennimerki eins og tíðkaðist hjá plötusnúðum og sýndi mér gamla peysu sem afi átti með tákninu Bigfoot aftan á og sagði það eitthvað sem myndi henta mér.“

Sem unglingur fílaði Kiddi tónlist, langaði að spila á hljóðfæri og fór í gítarnám. Í stað þess að læra að spila sóló í fyrstu tímunum, plokkaði hann bara eitthvað, fílaði það ekki og uppgötvaði plötusnúðinn í kjölfarið. Kiddi á því að baki 36 ár í bransanum en hann hefur hætt tvisvar, einu sinni í mánuð og svo í þrjá mánuði. Hann segir starfið ekki snúast lengur um tónlistina og hún sé ekki lengur aðalatriðið, heldur að hreyfa við fólki og gleðja fólk í hópum.

STÓRIR FÆTUR Í BLEIKUM SOKKUM  Kiddi var með extra stóra fætur þegar hann var yngri, en að hans sögn óx líkaminn. Kiddi notar í dag skó númer 47-48.

STÓRIR FÆTUR Í BLEIKUM SOKKUM Kiddi var með extra stóra fætur þegar hann var yngri, en að hans sögn óx líkaminn. Kiddi notar í dag skó númer 47-48.

Vildi ekki vera kenndur við Glæsibæ

Þegar Kiddi flutti til Íslands sautján ára gamall þá voru menn eins og Villi í Hollý og Gústi í Klúbbnum að dj-a hér heima en menn voru allajafna kenndir við skemmtistaðina sem þeir spiluðu á. Kiddi byrjaði í Glæsibæ og vildi ekki vera þekktur sem Kiddi í Glæsibæ, þannig að hann hélt Bigfoot-nafninu.Kiddi er búinn að dj-a á nánast öllum stöðum sem hafa verið reknir í Reykjavík.

„Eftir meira en þrjátíu ár í bransanum er ekkert lát á eftirspurn, ég gæti spilað allar helgar og virk kvöld líka og þarf því að bóka mig í frí. Í dag er ég mest í veislum en það er túristanum mest að þakka að það er fullt af gleði í bænum á virkum dögum, ekki eingöngu um helgar. Ferðamenn eru oft með veislu, þriggja rétta máltíð og dans til dæmis á þriðjudegi, enda eru allir dagar laugardagar þegar þú ert í útlöndum að skemmta þér,“ segir Kiddi.

Kiddi stílar sig inn á hópinn sem hann spilar fyrir og tekur hann sem dæmi að ef hann er að spila fyrir hóp af Frökkum þá fer hann inn á vinsældalista þar í landi og velur lög til að spila fyrir hópinn.

 

Dj-aði í hálfan sólarhring

Aðspurður um einhver eftirminnileg gigg nefnir Kiddi sem dæmi að hann var fenginn fyrir nokkrum árum til að spila í heimahúsi.

„Spilamennskan hófst klukkan 19 og ég átti að spila fram að  miðnætti og þá mættu leigubílar að sækja gestina. Fjörið var svo mikið að bílarnir voru beðnir að koma aftur klukkustund seinna, þegar bílstjórar komu aftur voru bílarnir greiddir og sagt að hringt yrði þegar þess þyrfti. Ég lauk hins vegar vaktinni ekki fyrr en klukkan sjö um morguninn og eftir þetta er ég mjög strangur á að fá að vita hvenær kvöldið á að enda.“

 

Fer í Þórsmörk og á Þjóðhátíð í sumar

Kiddi hefur í gegnum tíðina verið með mörg járn í eldinum en frekar rólegt er hjá honum í dag. Hann vinnur í Rekkjunni og hefur verið þar í tvö og hálft ár samhliða plötusnúðastarfinu.

„Í frístundum er ég að undirbúa gamlan Econoliner fyrir sumarið, stefnan er þó ekki tekin á hringferð um landið en tvennt er á dagskrá: Þórsmerkurferð  fyrstu helgina í júlí, þangað hef ég farið með vinahópnum í tuttugu og eitthvað ár samfleytt og svo Þjóðhátíð þar sem ég ætla að vera „all in“ og vera í tvær vikur og taka þátt í undirbúningi og frágangi sem og hátíðinni sjálfri. Ég fíla hefðirnar tengdar Þjóðhátíð í botn.“

FÓR Á HNÉN Í BREKKUNNI Kiddi bað Eyju á Þjóðhátíð 2015 þegar Sálin flutti Þjóðhátíðarlagið. „Eftir á að hyggja hefðum við kannski átt að taka niður grínhattana,“ segir Kiddi.

FÓR Á HNÉN Í BREKKUNNI Kiddi bað Eyju á Þjóðhátíð 2015 þegar Sálin flutti Þjóðhátíðarlagið. „Eftir á að hyggja hefðum við kannski átt að taka niður grínhattana,“ segir Kiddi.

Þjóðhátíð verður DJ-inn í brúðkaupi Kidda og Eyju

Þjóðhátíð er ekki það eina sem Kiddi fílar frá Eyjum, hann féll líka fyrir kærustunni Eyju sem er fædd þar og uppalin en Kiddi segist hafa þurft að hafa sig við til að ná Eyju í bæinn.

„Ég er alveg til í að flytja til Eyja ef samgöngur væru í lagi, en ég get ekki boðið fólki upp á að hringja með stuttum fyrirvara og afboða mig vegna þess að það er ekki flogið eða báturinn fari ekki á milli. Ég er mikið bókaður í brúðkaup og tilvonandi brúðhjón þurfa vanalega að stressa sig á mörgum öðrum hlutum en hvort að plötusnúðurinn komist eða ekki. Eftirspurnin er slík að ég er nú þegar bókaður í brúðkaup árið 2019,“ segir Kiddi sem var fyrsti plötusnúðurinn sem steig á stokk á Þjóðhátíð, en hann túraði með og var upphitari fyrir Vini vors og blóma. Það var mikið mál að koma honum að en hljómsveitin tók ekki annað í mál en að hann myndi sjá um upphitun.

FÍNSTILLTUR UM FIMMTUGT Kiddi er orðinn fullsprækur aftur eftir að hafa fengið nýjan gangráð stuttu eftir að hann varð fimmtugur.

FÍNSTILLTUR UM FIMMTUGT Kiddi er orðinn fullsprækur aftur eftir að hafa fengið nýjan gangráð stuttu eftir að hann varð fimmtugur.

 

Rúmlega fimmtugur í fínstillingu

Kiddi er með fæðingargalla, hjartagalla sem uppgötvaðist í Svíþjóð þegar hann var 14 ára og eitthvað átti að gera þegar hann myndi hætta að stækka, hann flutti síðan til Íslands og pældi ekkert meira í þessu.
„Þegar hann var að vinna á Astró á gamlárskvöldi árið 2000 fékk ég eins konar flass í augað sem ég pældi ekkert í en þremur mánuðum seinna fór ég til augnlæknis þar sem flassið var ekki farið og í ljós kom að hann var með blóðtappa í auga. Læknirinn sagði að ég hafi verið heppinn því ef blóðtappinn hefði farið aðeins lengra til hægri hefði hann farið í heilann og hann sagði mér síðan að drífa mig til hjartalæknis í frekari skoðun.“

Læknirinn þekkti fólk sem þekkir mig og spurði það hvort að ég myndi fara á spítalann að hans ráðum. Svörin voru að ég myndi sennilega bara vera í vinnunni og ekki mæta á spítalann. Þannig að læknirinn bankaði upp á hjá mér á sunnudegi og sagðist vera með annan lækni tilbúinn, hvort ég ætli að mæta sjálfur eða hvort að ég vildi far upp á spítala. Ég mætti sjálfur, var lagður inn og sendur í aðgerð þar sem skipt var um hjartaloku.“

Í aðgerðinni gerðist eitthvað og hjarta Kidda hætti að slá og í kjölfarið fékk hann gangráð sem hann hefur verið háður síðan. Gangráðurinn endist þó ekki endalaust og þarf Kiddi að skipta honum reglulega út. Á tímabili var Kiddi á spítalanum hálfsmánaðarlega. Síðasti gangráður gekk í sjö ár en Kiddi fór nýlega og fékk nýjan, stuttu eftir fimmtugsafmælið í mars og er því rétt stilltur inn í seinni hluta ævinnar en Kiddi stefnir að því að verða hundrað plús. Hann segir aldur afstæðan og honum finnist hann vera jafngamall og hann heldur að hann sé. „Fólk hættir ekki að leika af því að það verður gamalt, það verður gamalt af því að hætta að leika,“ segir Kiddi að lokum brosandi.

TEKUR LÍFINU LÉTT Kiddi er alltaf hress og kátur og stefnir að því að verða hundrað plús.

TEKUR LÍFINU LÉTT Kiddi er alltaf hress og kátur og stefnir að því að verða hundrað plús.

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts