Ekkert er nýtt undir sólinni, ekki heldur krúttkynslóðin sem vill að öll dýrin í skóginum séu vinir og er nú orðin umsvifamikil í pólitík sem Björt framtíð.

Upphaflegu krúttin stíga nú fram í frábæru viðtali við ráðherrahjónin Sigrúnu Magnúsdóttur og Pál Pétursson. Þó að þau hafi verið lengi í stjórnmálum eru lífsviðhorf þeirra í ætt við krúttin enda sækja þau sitt í starf gömlu ungmennafélaganna og samvinnuhreyfinguna þar sem maður og náttúra gengu í takt. Páll er gamall bóndi og veit betur en margur yngri hvað náttúran syngur. Sigrún er gamall kaupmaður á horninu sem þekkir kjör alþýðu sem þurftu stundum að fá skrifað hjá. Þetta er alvörufólk.

Skipan Sigrúnar Magnúsdóttur í embætti umhverfisráðherra er ein snjallasta lausn sem sést hefur í pólitík hér á landi lengi. Eftir aðeins nokkra daga í starfi mætti hún í Kastljós allra landsmanna og var þar þvælt fram og til baka í nafni náttúruverndar. En svaraði hreint og skýrt; sumt átti hún eftir að kynna sér en þegar kom að háspennulínum yfir hálendið var viljinn ljós: Nei takk!

Í viðtalinu við þau hjón hér í blaðinu kemur einnig fram femínískur tónn því það er Páll sem velur og kaupir fötin á konu sína. Og á klæðnaði kvenna, og þá sérstaklega kvenna í stjórnmálum, hefur hann skoðanir: Þær eiga að klæðast ljósu og skera sig þannig frá dökklæddum karlmönnum allt í kring.

Sigrún Magnúsdóttir og Páll Pétursson eru í raun frumkrúttin, frumfemínistarnir; fólk sem hefur séð tímana tvenna og dregið eiríkur jónssonsínar ályktanir af. Mættum við biðja um meira af slíku – og gera þannig lífið skemmtilegra og betra.

Eiríkur Jónsson

Related Posts