Ragnhildur Steinunn (33) snýr aftur eftir eins árs frí:

 

Sjónvarpskonan vinsæla Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir hefur lítið sést á skjánum síðastliðið ár þar sem hún hefur verið í ársleyfi eftir að hún eignaðist sitt annað barn. Hún snýr nú aftur með látum, uppfull af hugmyndum, og kemur víða við á skjánum í vetur.

ÚT UM ALLT: Ragnhildur Steinunn er komin aftur á RÚV eftir eins árs fæðingarorlof og byrjar af fullum krafti. Hún verður með þrjá þætti á skjánum í vetur og fer létt með það.

Á fullu Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir hefur lítið verið í Sjónvarpinu síðastliðið ár þar sem hún tók sér gott frí eftir að hún eignaðist sitt annað barn. Hún snýr aftur á skjáinn í haust, með hvorki meira né minna en þremur þáttum, og hefur því nóg að gera. „Ég tók mér ársleyfi, fyrir utan smáinnkomu í orlofinu fyrir Eurovision, og ég er orðin mjög spennt fyrir því að koma aftur,“ segir Ragnhildur Steinunn.

Ragnhildur Steinunn segir fátt betra en að vera í löngu fríi og dúllast með tveimur börnum en hún á fjögurra ára stelpu og fyrir ári síðan bættist lítill strákur í fjölskylduna. Þrátt fyrir fjörið á heimilinu er vinnan Ragnhildi jafnan ofarlega í huga.

„Það var æðislegt í fríinu og það borgar sig eiginlega fyrir RÚV að ég taki frí reglulega. Ég pæli svo mikið í vinnunni í fríum og kem til baka uppfull af hugmyndum. Þegar ég er í fríi hef ég meiri tíma til að lesa, fylgjast betur með samfélaginu og fylgjast með dagskránni úr hæfilegri fjarlægð. Þá fær maður líka ýmsar hugmyndir í sambandi við dagskrána.“

Ragnhildur Steinunn sér um þáttinn Óskalög þjóðarinnar ásamt tónlistarmanninum Jóni Ólafssyni. Í þáttunum verða vinsælustu lög landins, frá árunum 1944-2014, sett í nýjan búning og flutt af bestu söngvurum landsins. Þátturinn hefst í október en áður en þessi þáttur kom til var Ragnhildur Steinunn þegar komin með tvo aðra þætti á vetrardagskránni en hún gat ekki annað en slegið til.

„Þetta kom nú bara þannig til að Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri talaði við mig í fæðingarorlofinu. Mér fannst þetta góð og skemmtileg hugmynd að þætti og fann strax að mig langaði að vera með í þessu,“ segir Ragnhildur Steinunn sem ákvað að slá til.

KJARNORKUKONA: Ragnhildur Steinunn er með mörg járn í eldinum og hefur pælt í dagskrá Sjónvarpsins allt síðastliðið ár á meðan hún var í orlofi.

KJARNORKUKONA:
Ragnhildur Steinunn er með mörg járn í eldinum og hefur pælt í dagskrá Sjónvarpsins allt síðastliðið ár á meðan hún var í orlofi.

„Það er frábært að vinna með Jóni Ólafssyni. Hann er alger viskubrunnur þegar kemur að tónlist og veit miklu meira en ég hefði þorað að gera mér vonir um.“ Það verður heldur ekki komið að tómum kofunum hjá Ragnhildi Steinunni sem liggur nú yfir tónlistarsagnfræði og drekkur í sig fróðleik og tíðaranda liðinna áratuga en lögin sem verða í þættinum eru flokkuð eftir áratugum. „Ég er að lesa Stuð vors lands og Ísland í aldanna rás og er að reyna að setja mig aðeins inn í tíðaranda hvers áratugar fyrir sig. Finna skemmtilegar tengingar milli laganna og þess tíma þegar þau voru vinsæl.“

Ragnhildur Steinunn ritstýrir einnig nýjum þætti í Sjónvarpinu. „Þátturinn heitir Hæpið og er hispurslaus þáttur fyrir ungt fólk. Þar starfa ég einungis bak við tjöldin, kem að efnistökum og útliti. Það er frábært að fá að vinna með ungu og hæfileikaríku sjónvarpsfólki og hjálpa því að blómstra á skjánum.“ Þátturinn fer í loftið í október og í honum verða Unnsteinn Manúel, úr Retro Stefson, og Katrín Ásmundsdóttir laganemi en þau koma til með að velta fyrir sér málefnum unga fólksins.

Þrátt fyrir að Ragnhildur sé eilítið að færa sig bak við tjöldin innan herbúða RÚV munu landsmenn þó sjá hana aftur á skjánum eftir áramót en þá hefst fjórða sería Ísfólksins. ,,Ég er nýkomin frá London þar sem við fylgdum tónlistarmanninum Ólafi Arnalds eftir en þar ræddum við meðal annars við framleiðendur sakamálaþáttanna Broadchurch en hann fékk BAFTA-verðlaunin fyrir tónlistina í þáttunum.“

Related Posts