Hallgrímur Thorsteinsson (59) og Ragnheiður Óskarsdóttir (57):

 

Hjónin Hallgrímur Thorsteinsson og Ragnheiður Óskarsdóttir hafa lifað tímana tvenna saman, enda verið hjón í 20 ár. Þau láta deigan aldrei síga, hann sem ritstjóri DV og hún sem verslunareigandi.

Samrýnd og sæt „Það er ofsalega gaman. Ég var satt best að segja ekki alveg viss þegar ég fór inn í þetta á þessum miklu umbrotstímum sem voru í gangi á DV en ég setti fyrir mig að þetta ætti að vera gaman. Síðan þá hefur þetta verið skemmtileg upplifun og það er frábært lið þarna sem er að gera frábæra hluti,“ segir fjölmiðlamaðurinn góðkunni Hallgrímur Thorsteinsson. Hallgrímur er landanum vel kunnugur eftir að hafa starfað í fjölmiðlum í áratugi. Hann starfar nú sem ritstjóri DV eftir mikla óvissu hjá þessum rótgróna fjölmiðli.

Réttur maður

Kona Hallgríms tekur í sama streng. „Mér líst mjög vel á þetta. Það er búið að vera annasamur tími undanfarið og ég hef ekki séð mikið af honum. En hann hefur virkilega gaman af þessu eins og hann segir því annars hefði hann ekki gert þetta. Hann er klárlega réttur maður á réttum stað, frjáls og óháður.“

Það vakti mikla athygli á dögunum þegar að Pressan ehf, með Björn Inga Hrafnsson í forsvari, keypti ráðandi hlut í DV.

„Þetta er forvitnilegt og spennandi að mörgu leyti. Það var alveg ljóst hjá þeim sem voru að reka DV að það þurfti að styrkja reksturinn og þeirra leið var að leita eftir samstarfi og stækka fyrirtækið. Þetta var sniðugt skref því þarna erum við komin með stærri og traustari einingu. Ég hef aldrei unnið með Birni Inga þannig að það verður spennandi að sjá hvert framhaldið verður.“

Góður Garðabær

Hallgrímur og Ragnheiður búa í Garðabæ, kunna því vel og vilja hvergi annars staðar vera. „Ég er uppalinn í Garðabænum, reyndar fæddur í Reykjavík en var alla mína bernsku í Garðabænum. Í upphafi var þetta sveit, þá hét þetta Garðahreppur. Ég á mjög sterkar rætur hérna. Ekki eyðileggur gott gengi Stjörnunnar í fótboltanum. Eitt minnisstæðasta augnablik æsku minnar var þegar ég keppti með Stjörnunni í fimmta flokki og við mættum ÍBV úti í Eyjum. Þá var Ásgeir Sigurvinsson í liði Eyjamanna og það er hægt að segja með vissu að liði Stjörnunnar gengur mun betur í dag heldur en okkur gekk þennan örlagaríka dag,“ segir Hallgrímur og skellir upp úr.

Ragnheiður er alin upp í Smáíbúðahverfinu og miðbænum. „Mér líður mjög vel hérna í Garðabænum. Þegar ég flutti hingað fyrst þá fannst mér ég einmitt vera að flytja í sveitina. Fjölskyldunni hefur liðið vel hérna og hluti af börnunum okkar, þau sem eru farin að heiman, eru búin að festa rætur hérna.“

 

Hann hlýðir

Ragnheiður er eigandi Ilse Jacobsen Hornbæk-verslananna sem staðsettar eru á Garðatorgi og á  Laugavegi. „Það gengur mjög vel og skemmtilegt að sjá hvað merkið er á mikilli siglingu. Ástæðan fyrir því held ég að sé bæði að verðin er í meðallagi og gæðin mikil. Kúnnarnir þekkja merkið orðið vel og það er kominn ákveðinn gæðastimpill á merkið. Línan breikkar líka á hverju ári og býður upp á allt frá samkvæmiskjólum til hinna klassísku gúmmístígvéla.“

Hallgrímur  lætur sitt ekki eftir liggja þegar kemur að búðarrekstri eiginkonunnar. „Ég hef aðeins verið í sendiferðum og geri bara það sem mér er sagt. Hún er frábær „boss“ og ég hlýði,“ segir Hallgrímur og brosir til konu sinnar.

Hallgrímur og Ragnheiður hafa verið saman í rúm 20 ár og hamingjan skín af þeim hjónum. „Við kynntumst á mannfagnaði í Reykjavík árið 1992 og höfum verið saman síðan,“ segir Hallgrímur. „Við kynntumst þann örlagaríka dag 9. september,“ bætir Ragnheiður við.

Sér kjarnann

Hallgrímur lítur framtíð DV björtum augum og segir að DV hafa sannað sig enn á ný sem frjáls og óháður miðill, meðal annars með lekamálinu svokallaða. „DV er miðill sem þorir þegar aðrir þegja. Við sjáum alltaf betur og betur hvað það er mikil þörf fyrir fjölmiðil eins og DV.“

DV hefur verið mikið á milli tannanna og fólki og þá mikið vegna eigendaskipta og komu fjölmiðlamannsins Björns Inga á blaðið. „Koma Björns er spennandi og ég hef ekki áhyggjur af því að pólitískur bakgrunnur hans hafi áhrif á fréttaflutning. Hann hefur tekið það skýrt fram að hann ætli ekki að hafa nein afskipti af ritstjórn DV og ritstjórnarlegt frelsi DV verði áfram óskert.“ Ragnheiður er sammála manni sínum og segir hann eiga vel heima á DV. „Hann hefur mikla reynslu og er yfirvegaður. Hann er fljótur að sjá kjarnann í hlutunum. Þó að hann sé rólegur þá lætur hann ekki ráðskast með sig. Hann er hin þögla frekja,“ segir Ragnheiður og hlær.

Related Posts