Allt er eins og það á að vera og allt verður eins og það á verða – eru viskukorn sem góð kona laumaði að mér einn napran haustmorgun, þegar ég sötraði svart kaffi í eldhúsinu hennar og tilveran bar keim af kaffinu. Á þeim tímapunkti var ég ekki viss um að allt væri eins og það ætti að vera og að allt færi eins og það átti að fara, en svo fór nú samt. Sem betur fer.

Framtíðin er núna, af hverju bíða eftir því sem gæti orðið – ef við sitjum og bíðum eftir lífinu fer það fram hjá og við missum af strætó. Vissulega er skynsamlegt að ana ekki út í neina vitleysu að óathuguðu máli en samt – ef þig langar í fjallgöngu farðu þá af stað. Það er aldrei rétti tíminn til að eignast barn – vertu ólétt – ekki hinkra.

Það er aldrei rétti tíminn fyrir neitt hvort sem er. Þess vegna er svo mikilvægt að byrja framtíðina strax, því áður en við vitum af er hún orðin að glötuðum tækifærum og grá forneskja – jafnvel bitur minning um það sem ekki varð.

Er þetta ástin í lífi þínu? Já, kannski, hver veit – ég veit það ekki fyrr en á reynir. Hvers vegna erum við mannfólkið alltaf hreint að flækja alla hluti? Höfum þetta einfalt – það er farsælast.
Ef þú elskar einhvern – segðu það. Viltu ís – fáðu þér ís. Það er ekki eftir neinu að bíða –morgundagurinn er ekki fasti sem hægt er að reiða sig á – því miður.

Almennileg naglasúpa þarf ekki að innihalda heilan helling af kryddum til þess að bragðast vel – það gildir að naglinn sé almennilegur.

Stjórnmálamenn þessa lands og annars brölta með valdið og deila hvernig og hverjir eiga með það að fara.

Minna er meira – hafið það einfalt – það gerir lífið skemmtilegra eins og Séð og Heyrt gerir í viku hverri og líka á Netinu.

Related Posts