Þórunn Egilsdóttir, varaþingflokksformaður Framsóknarflokksins, lét myndlistarmanninn Snorra Ásmundsson heyra það  á miðjum Laugaveginum á fimmtudag. Þar var Snorri að afhjúpa verk sitt Framsóknarmaðurinn í glugga á Laugavegi 41. Framsóknarmaður Snorra er með allt niðrum sig í bókstaflegri merkingu og stendur sneyptur í skammarkróknum í klæddur lopapeysu úr íslenskri ull.

Sauðfjárbóndanum Þórunni mislíkaði stórlega málflutningur Snorra í Fréttablaðinu daginn áður þar sem hann sagði sataníska orku umlykja Framsóknarflokkinn. Snorri tók skömmum þingkonunnar með jafnaðargeði enda ekki laust við að gjörningur hans fullkomnaðist við þetta óvænta útspil Þórunnar.

Snorri segist þó ekki geta skilið það sem Þórunn hafði við hann að segja sem annað en hótun undir rós þar sem hún sagðist vona að þetta myndi ekki bitna á honum í framtíðinni.

Séð og heyrt var vitaskuld á staðnum þegar ósköpin gengu yfir og festi senuna á filmu. Hljóðið er því miður ekki með besta móti þar sem verk Snorra yfirgnæfir skammarræðu Þórunnar. Sjón er engu að síður sögunni ríkari.

Related Posts