Pulsur

BÆJARINS BESTA GRÍN: Myndir Árna af frægum fá sér pulsu hafa vakið mikla athygli og almenn ánægja virðist vera með uppátækið.

Árni Sveinsson (38) vaktar Bæjarins beztu:

Kvikmyndagerðarmaðurinn Árni Sveinsson hefur gott útsýni yfir pulsuvagn Bæjarins beztu í Tryggvagötu. Hann hefur góðar gætur á staðnum og þegar hann sér þekkt fólk fá sér eina með öllu tekur hann mynd af viðkomandi og birtir á Facebook undir fyrirsögninni Frægir fá sér pulsu.

Ein með öllu „Útsýnið er gott og við höfum verið að smella myndum af fólki fá sér pulsu,“ segir Árni en myndirnar sem hann hefur birt af frægum fá sér pulsu eru orðnar 26. „Þetta hefur vakið kátínu og hefur verið að vinda upp á sig.“

Þekkt fólk virðist síður en svo skammast sín fyrir pulsuátið og þeir eru fleiri sem beinlínis vilja fá af sér mynd en þeir sem telja sig eiga að njóta persónuverndar við átið. „Fólk er farið að mæta þarna sérstaklega til þess að láta mynda sig og það eru til dæmi um að fólk hafi farið í fýlu vegna þess að ég var ekki á staðnum með myndavélina þegar það „graðgaði“ í sig einni glóðvolgri.“

Myndbirtingar Árna hafa vakið mikla athygli og hann er í raun kominn með liðsauka í almenningi. „Fólk sem er að keyra fram hjá hefur hringt í mig til þess að láta mig vita ef einhver frægur er að fá sér pulsu. Ég er stundum bara heima hjá mér í rólegheitum þegar ég fæ þessi símtöl. Þetta skens er að vinda upp á sig og fólk er jafnvel farið að mæta og pósa. Það eru uppi hugmyndir um að halda stóra ljósmyndasýningu þar sem Bæjarins beztu munu að sjálfsögðu sjá um veitingarnar. Þetta myndi svo koma út á bók.“

Pulsur

FYRSTA MYNDIN: Gísli galdur fær sér pulsu. Þetta er fyrsta myndin í röðinni sem nú telur tæplega 30 myndir.

Árni er ekki aðeins hrifinn af pulsunum og þeim sem þær kaupa á Bæjarins beztu, samfélagslegt mikilvægi staðarins er honum einnig ofarlega í huga. „Við höfum auðvitað tekið eftir því hvernig þetta virðisaukaskattsbingó er að fara með veitingastaði og matvöruverslanir en Bæjarins beztu hagga ekki verðinu hjá sér. Enda sér maður mikið af eldri borgurum hérna. Þetta fólk hefur ekkert efni á mat og fer út borða á Bæjarins beztu.“

Frægir fá sér pulsu byrjaði í gríni sem vatt síðan upp á sig. „Fyrst var þetta nú bara grín gert að góðum félaga, landflótta plötusnúðinum Gísla galdri. Hann var tíður gestur þarna og þetta byrjaði eiginlega á honum og myndirnar sem til eru af honum eru nokkrar en ég hef ekki birt þær allar enda lyktar slíkt af einelti. Maður færi til dæmis ekki í þann pakka að birta oft myndir af Hermanni Hreiðarssyni. Maður vildi ekki kafna á pulsu Hermanatorsins. “

 

 

 

Pulsur

Á VERÐI: Árni hefur gott útsýni yfir pulsuvagninn og fáir frægir komast óséðir fram hjá honum.

Pulsur

HERMANATORINN: Hermann Hreiðarsson í röðinni að bíða eftir pulsunni sinni.

Pulsur

LEIKSTJÓRINN: Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri laumast burt eftir að hafa hesthúsað einni.

Related Posts