Frægir og einir:

Fólk er eins misjafnt og það er margt og er frægt fólk ekkert öðruvísi en aðrir. Það höndla ekki allir frægðina sem fylgir í kjölfar verka þeirra. Flýgur eflaust mörgum Britney Spears í hug ef minnst er á opinber taugaáföll en til eru þeir sem hafa frekar lokað sig af heldur en að taka því sem óhjákvæmilega fylgir frægðinni.

Einbúar

ERFIÐUR: Í myndinni The Aviator lék Leonardo DiCaprio þennan erfiða milljónamæring

Howard Hughes
Eflaust þekkja margir til hans, ef ekki fyrir hans eigin verk þá vegna myndarinnar The Aviator þar sem Leonardo DiCaprio lék þennan erfiða milljónamæring. Það var vel þekkt að hann hafi verið með áráttuþráhyggjuröskun. Eitt sinn varð hann svo heltekinn af galla í blússu Jane Russell að hann hannaði brjóstahaldara með undirvír, sem ekki þekktist á þeim tíma, til að laga gallann. Árið 1947 lokaði hann sig af inni í myrku kvikmyndaherbergi í fjóra mánuði. Þar át hann ekkert nema súkkulaðistykki, drakk mjólk og losaði um vessa í tómar flöskur. Seinna meir flutti hann á milli þakíbúða á hótelum. En árið 1950 var hann búinn að einangra sig alveg og neitaði að koma út. Hann náði sér aldrei og dó árið 1976.

Einbúar

TILVILJUNARKENNT: Greta fór fyrir tilviljun að leika í kvikmyndum eftir að leikstjóri tók eftir henni í hverfisbúðinni.

Greta Garbo
Hin sænska Greta var alin upp í fátækrahverfi í Stokkhólmi. Hún fór fyrir tilviljun að leika í kvikmyndum eftir að leikstjóri tók eftir henni í hverfisbúðinni. Árið 1930 var hún orðin heimsfræg og fangaði athygli bandarískra áhorfenda með kynlausa útliti sínu og hásri rödd. Leikkonan kom sér hjá Hollywood-lífinu, neitaði að gefa eiginhandaráritanir, fór ekki í viðtöl og svaraði ekki aðdáendabréfum. Hún fór heldur ekki á kvikmyndafrumsýningar né verðlaunaafhendingar, ekki einu sinni árið 1955 þegar hún fékk Óskar fyrir framlag sitt til kvikmynda. En hlédrægni hennar vakti forvitni blaðamanna og prýddi hún oft síður blaðanna. Þrjátíu og sex ára gömul, árið 1941, sagðist hún ætla að taka sér smáfrí frá kvikmyndaleik en það frí entist allt fram á dánardægur hennar árið 1990. Hún bjó ein mestan hluta af þessum fjörutíu og níu árum. Hún var vinamörg og ferðaðist mikið og þótti þeim sem þekktu til hennar hún vera ansi fyndin og skemmtileg. Á seinni tímum hefur verið leitt getum að því að hún hafi verið með geðhvörf.

Einbúar

EINFARI: Hún fór ekki út fyrir lóð fjölskylduheimilis síns í að minnsta kosti tuttugu ár.

Emily Dickinson
Hið fræga ljóðskáld var ekki mikið fyrir að hitta fólk. Hún talaði við fólk í gegnum hurðir, gaf krökkum góðgæti með því að láta körfu síga niður úr glugga á annarri hæð og hún hlustaði á jarðarför föður síns lokuð inni í herberginu sínu. Hún fór ekki út fyrir lóð fjölskylduheimilis síns í að minnsta kosti tuttugu ár. Af þeim 1.800 ljóðum sem hún samdi voru færri en tólf gefin út á meðan hún lifði. Nokkrir sérfræðingar halda að félagskvíði hafi verið ástæðan fyrir því að hún hélt sig innandyra eða að foreldrar hennar hafi ofverndað hana. Hver sem ástæðan var varð hún þekkt fyrir að kjósa einveru á meðan hún lifði og frábæra skáldagáfu eftir dauða sinn.

Einbúar

VILL ENGA ATHYGLI: Harper hefur síðan 1960 neitað að veita nokkur viðtöl.

Harper Lee
Höfundur hinnar þekktu skáldssögu To Kill a Mockingbird hefur síðan 1960 neitað að veita nokkur viðtöl. Hún kemur opinberlega fram einstaka sinnum en sama hvar hún er neitar hún að halda ræður eða koma í fjölmiðla. Hún var beðin um að tala opinberlega árið 2007 en sagði þá: „Það er betra að halda kjafti heldur en vera flón.“

 

Einbúar

VILDI EKKI VERA TRUFLAÐUR: Systir Syd sagði ástæðuna fyrir einverunni vera þá að honum hafi fundist höfuðið á sér það áhugavert að hann vildi ekki vera truflaður.

Syd Barrett
Syd var einn af stofnendum Pink Floyd en eftir að hafa spilað með á tveimur plötum með þeim hætti hann og stofnaði aðra hljómsveit sem hann yfirgaf eftir að hafa troðið upp með henni þrisvar sinnum. Eftir það ákvað hann að einbeita sér að sólóferli sínum sem gekk ekki betur en svo að eftir þrjá daga gafst hann upp og seldi höfundarrétt laga sinna til útgáfufyrirtækis síns og flutti á hótel. Þegar peningarnir kláruðust gekk hann nærri 80 km leið heim til móður sinnar í Cambridge og þar var hann allt til dauðadags. Hann fór að mála, stunda garðyrkju og samdi bók sem aldrei kom út. Frá 1978 og þar til hann dó, 2006, kom hann aldrei fram opinberlega. Systir hans sagði ástæðuna fyrir einverunni vera þá að honum hafi fundist höfuðið á sér það áhugavert að hann vildi ekki vera truflaður.

Related Posts