Frá því að ég man fyrst eftir mér hef ég alltaf verið mikið í kringum frægt fólk á Íslandi. Mamma vann lengi vel í Sjónvarpinu og pabbi stjórnaði banka.

Löngu áður en ég byrjaði að vinna hjá Séð og Heyrt var ég óbeint hluti af þessum Séð og Heyrt-hópi. Mamma var oft umfjöllunarefni hér og pabbi líka. Fólk sem ég þekkti í gegnum pabba og mömmu sá ég á forsíðu Séð og Heyrt því það var skilja, byrja saman eða kaupa sér nýjan bíl.

Ég kippti mér aldrei upp við þetta því fyrir mér var þetta bara fólk sem gerði svipaða hluti og mamma og pabbi. Annaðhvort starfaði það í sjónvarpi eða stjórnaði stórum fyrirtækjum, fyrir mér var þetta bara normið.

Þegar ég varð eldri áttaði ég mig á því að þetta var kannski ekki alltaf normið. Hinn venjulegi Jón niðri í bæ er ekki beðinn um mynd þegar hann gengur niður Laugaveginn eða birtist á forsíðum blaðanna þegar hann kaupir sér nýjan bíl.

Þetta er fólk sem annað fólk vill lesa um því við viljum vita hvað fólkið á skjánum gerir heima hjá sér á milli fimm og sjö eða hvernig bíl það ekur. Það er áhugavert að lesa um fólk sem við þekkjum öll en þekkjum samt ekki neitt. Ég man einmitt mjög vel eftir því þegar ég var eitt sinn í veiðiferð með pabba og Inga Lind Karlsdóttir og eiginmaður hennar, Árni Hauksson, voru með. Mér fannst allt í einu voðalega merkilegt að Árni skyldi mæta upp í veiðihús á Porsche og Inga Lind á Mercedes Benz. Þetta átti sér þó allt eðlilegar skýringar, Inga Lind þurfti að fara fyrr úr veiðiferðinni en ég var á þeim aldri að þegar ég sá Porsche-jeppa og Mercedes-jeppa hlið við hlið missti ég kúlið í smástund.

Þetta fólk sem ég skrifa um dagsdaglega er misskemmtilegt, eins og gengur og gerist, en á yfirborðinu er allt fullkomið og það yfir sig hamingjusamt. Það er þó auðvitað ekki alltaf þannig. Annað sem ég hef tekið eftir, þá sérstaklega við störf mín hér, er að frægt fólk á Íslandi er allt vinir. Mér finnst magnað að einhver sem bjó til þátt á visi.is, til dæmis, heilsi og spjalli við einhvern eins og Rúnar Frey Gíslason, svo að ég taki nú bara dæmi.

Allt þetta fólk virðist deila sama áhugamáli, að vera frægur. Það er þó kannski ekki skrítnara en að gjaldkeri í Landsbankanum ræði við gjaldkera í Arion banka um gjaldkerastörfin. Þetta  fólk vinnur jú við það sama og það að vinna við það að vera frægur getur verið full vinna. Þú þarft að láta sjá þig á ákveðnum stöðum til að fólk gleymi þér ekki, þegar þú gefur út nýtt efni þarftu að birtast á síðum Séð og Heyrt svo að þú fáir auglýsingu.

Þetta fólk er allt bestu skinn og lifir næstum því sama lífi og við hin. Það borðar kvöldmat, fer að sofa og svo vaknar það einnig á morgnana – ótrúlegt en satt.

Þetta fólk sem við elskum að lesa og skrifa um, elskar að láta lesa og skrifa um sig. Þau bara vita það ekki öll – flest, en ekki öll.

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts