Óskarsverðlaunin fara oft framhjá þeim góðu:

Óskarsverðlaunin verða seint raunhæfur mælikvarði á gæði kvikmynda þótt oftast nær séu þær býsna góðar myndirnar sem hljóta helstu verðlaunin. Verðlaunin verða einnig alltaf umdeild og í raun liggur ótrúlegur fjöldi mynda óbættur hjá garði.

Hér eru taldar upp nokkrar frábærar myndir sem eru fyror löngu orðnar sígildar en fengu ekki svo mikið sem eina tilnefningu til verðlaunanna.

Áður en Coen-bræður rufu óskarsmúrinn með handriti Fargo og síðar hressilegu uppsópi með No Country For Old Men voru bræðurnir úti í kuldanum og þannig fengu hvorki Miller’s Crossing (1990) né The Big Lebowski (1998) eina einustu tilnefningu.

Don’t Look Now (1973), eftir Nicolas Roeg, er magnaður hrollur sem ristir djúpt. Donald Sutherland og Julie Christie voru í fantaformi í aðalhlutverkunum en myndin fékk engar tilnefningar.

Margir furða sig á að sú mannbætandi gamanmynd Groundhog Day (1993) hafi enga tilnefningu fengið og sama má segja um spennumyndina Heat (1995) þar sem þeir deildu tjaldinu óskarsmeistararnir Al Pacino and Robert De Niro undir styrkri stjórn Michael Mann.

Akademían var ekkert mikið fyrir að ausa Orson Welles tilnefningum þrátt fyrir að hann eigi heiðurinn af Citizen Kane sem alla jafna er talin til bestu mynda allra tíma. S’u mynd hlaut aðeins ein verðlaun af níu tilnefningum en frábærar rökkurmyndir Welles, The Lady From Shanghai (1948) og Touch of Evil (1958) fengu ekki tilnefningu.

Einhver magnaðasti óskarsbrandarinn er að sú sígilda hryllingsmynd The Shining (1980) fékk ekki eina einustu tilnefningu en leikstjórinn Stanley Kubrick var það árið tilnefndur til Razzies-skammarverðlaunanna.

Related Posts