Ég fór í pottinn um daginn en ég er ekki mjög duglegur að fara í sund. Það er eitthvað við það að liggja umkringdur hálfnöktum, gömlum körlum sem er ekki að heilla mig mikið. Engu að síður ákvað ég að skella mér í sund á sólríkum sunnudegi sem var bara nokkuð fínt, ég fékk smálit sem gerir öllum gott.

Eins og flestir vita þá myndast oft skemmtilegar umræður í pottinum og oftast fylgja þær tíðarandanum sem nú snýst auðvitað bara um forsetakosningarnar. Ég kom mér vel fyrir í 42 gráðunum og byrjaði að hlusta á mér eldri og vitrari menn. Það gerði mér eflaust gott því ég viðurkenni fúslega að ég hef lítið pælt í forsetaframbjóðendunum. Ég er svona nokkurn veginn búinn að ákveða hvern ég kýs en það er alltaf ágætt að heyra rök frá öðrum.

„Þessi „myrkrahöfðingi“ á ekkert erindi í forsetann. Það var auðvitað hann sem bjó til hrunið,“ heyrði ég einn segja og nú gef ég mér að hann hafi verið að tala um Davíð. Samkvæmt þessu á ég víst ekki að kjósa hann.fr_20141128_006789

Maðurinn hélt áfram: „Svo er það þessi Th. týpa. Hvað hefur hann svo sem gert annað en að lesa einhverjar bækur og blaðra í sjónvarpinu? Þetta er bara einhver dekurdrengur úr Garðabæ sem hefur aldrei svo mikið sem þurft að lyfta litla fingri!“ Ég á sem sagt ekki að kjósa Guðna.

„Svo er það hann Andri. Biddu fyrir þér! Maðurinn skrifar eina bók fyrir tíu árum og hefur verið á launum síðan. Fyrir hvað?“ Andri Snær er sem sagt út úr myndinni.

„Ekki einu sinni láta mig byrja á að tala um þessa Baugskerlingu. Hún er nú verst af þeim öllum! Nýkomin úr Bahamaveislu hjá Björgólfi Thor þar sem kampavín og kavíar flæðir um alla veggi og nú vill hún verða forseti!“ Halla dottin út.

Eins og þið hafið kannski tekið eftir þá var þessi maður búinn að telja upp þá fjóra helstu sem eiga einhvern séns í forsetann en enginn er nógu góður. Mig langaði að spyrja manninn hvern hann myndi kjósa en eldri kona, sem var orðin heldur þreytt á þessu röfli, var á undan mér og spurði hikandi.

„Það á bara að leggja þetta grínembætti niður,“ þrumaði gamli maðurinn yfir allan pottinn. „Alveg ótrúlegt að við séum að borga einhverjum trúðum fyrir það eitt að eiga heima einhvers staðar úti í sveit og skemmta sér í einkaþotum. Ætli Maggi Texas sé ekki sá sem passar best í þetta embætti? Best væri að fá hann til að steikja skósóla þarna fyrir utan,“ endaði hann ræðu sína á og gekk hlæjandi upp úr pottinum.

Eftir stutta stund steig ég sjálfur upp úr pottinum, gekk hægum skrefum í átt að sturtuklefanum og reyndi að meðtaka allt það sem þessi gamli maður hafði sagt. Ég átti erfitt með það.

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts