Kalli Bjarni (39) snýr aftur:

 

Söngvarinn og sigurvegari Idol-stjörnuleitarinnar, Kalli Bjarni, hefur marga fjöruna sopið. Hann segir að hann hafi látið fortíð sína halda aftur af sér á stundum en nú ætli hann að snúa aftur á tónlistarsviðið og vonist til þess að senda frá sér plötu sem fyrst.

Kalli Bjarni, Spurt og Svarað

MÆTTUR AFTUR: Kalli Bjarni ætlar sér að láta tónlistardrauminn rætast og langar að gefa út nýja plötu.

Lífið er ljúft „Lífið gengur bara sinn vanagang. Ég er á sjónum og síðan finn ég mér bara eitthvað að gera. Er með þriggja ára stelpu sem maður er auðvitað búinn að vera að sinna síðustu þrjú ár. Lífið er bara ljúft,“ segir Kalli Bjarni.

Klæjar í puttana

„Mig hefur klæjað mikið í „comeback“ puttana og hef verið að taka upp sjálfur undanfarið. Nokkur lög eftir mig eru komin inn á YouTube, eins og til dæmis lögin „My Own Blood“ og „Better Place“. Ég fór á söngnámskeið hjá Birgittu Haukdal þar sem ég lærði að beita röddinni betur og það var mikill opinberun fyrir mig. Mér hefur klárlega vaxið ásmegin eftir það. Það verður gaman að sjá hvort fólk sjái einhvern mun á flutningi.“

„Svo er ég með hugmynd að þjóðhátíðarlagi og það verður gaman að sjá hvernig það muni koma út. Ég auglýsi því bara hér með eftir einhverjum sem þorir í áhættufjárfestingu og er til í að gefa kallinn út,“ segir Kalli og hlær.

Kalli Bjarni, Spurt og Svarað

HORFIR TIL SJÓS: Kalli er með skipstjóraréttindi á fiskibát og sér fyrir sér sjómennsku meðfram tónlistarferlinum.

Föðurhlutverkið frábært

Kalli Bjarni á þriggja ára dóttur og segir föðurhlutverkið frábært.

„Nú er maður kominn með almennilegan þroska til að upplifa föðurhlutverkið. Maður hefði svo sem verið til í að vera með þann þroska alla tíð en föðurhlutverkið er æðislegt. Ég var með dóttur mína allt sumarið þar sem móðir hennar var erlendis og þá rölti ég um með hana í kerrunni á hverjum degi. Það var yndislegt.

Mér finnst ég vera búinn að eyða of miklum tíma í að láta fortíðina draga úr mér þrek og þor. Nú er ekkert vesen á mér og kallinn er bara flottur. Ég held bara áfram veginn og reyni að gera eitthvað gott og gefa af mér. Í miðju kafi þá tók ég skipstjóraréttindin. Ég er komin með réttindi á fiskibát þannig að maður er að reyna að sérhæfa sig í einhverju sem manni finnst skemmtilegt,“ segir Kalli Bjarni, til í tuskið.

 

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts