„Nú er þetta leiðinlega ástarvæl byrjað aftur,“ andvarpaði vinkona mín og setti í brýnar um leið og hún fletti hratt fram hjá auglýsingum blómasala. „Hvað er málið með þennan dag. Þetta er einhver amerískur delludagur sem við erum að apa eftir, bara til að láta konum eins og mér líða illa af því að þær fá ekki bensínstöðvarblóm og gamalt konfekt frá einhverjum gaur.“

Ég fann virkilega til með vinkonu minn sem að öllu jöfnu er með geðslagið í lagi og kippir sér ekki upp við auglýsingar frá blómaframleiðendum. Ég reyndi mitt besta til að gera gott úr öllu og bauðst til að gefa henni bensínstöðvarblóm og gamalt konfekt. „Nei, takk, þessi dagur er bara fyrir ástfangna aumingja.“

Og þar lá hundurinn grafinn. Vinkonan er í sárum eftir einhvern lélegan gaur (að hennar sögn) og fer öll á ið og verður viðskotaill þegar minnst er á ást, kerti og blóm.

„Þessi fokkings Valentínusardagur er bara ekki heilbrigður. Það eru heilu bílfarmarnir af hjartaböngsum og I love you-blöðrum í Hagkaup, meira að segja í mjólkurkælinum er eitthvert ástardót,“ frussaði vinkona mín út úr sér.

„Ég rak nú ekki augun í slíkt í síðustu verslunarferð. Hvað segirðu, er til svona ástarmjólk, eins og jólasveinamjólkin?“

„Kökur, Ásta, ástartertur, en ætli það verði ekki komin ástarmjólk á markaðinn á næsta ári.“

Vinkona mín engdist um af kvölum yfir öllu ástarníðinu sem er troðið upp á þjóðina í aðdraganda Valentínusardagsins ógurlega.

Ég var nú nokkuð hugsi yfir þessu ástandi og velti því fyrir mér hvort ekki ætti að setja upp aðvörunarskilti í verslunum, VARÚÐ ÁSTARDAGAR, svona til þess að konur eins og hún, sem þola ekki áminningar um væmna ást og rómantík, geti undirbúið sig og falið sig í helli á meðan rómantíkin gengur yfir.

En er ástin mæld í blómvöndum og krúttarlegum böngsum? Er það hinn raunverulegi mælikvarði á ást? Hefði gaurinn hennar vinkonu minnar fengið lengri lífdaga ef hann hefði keypt bangsa og blóm á Valentínusardaginn? Mér er það til efs.

Vandinn er sá að fólk er með rangt viðmið, það heldur að birtingarmynd hamingju sé falin í konfektkassa. Við þurfum ekki markaðsvædd viðmið til að segja okkur hvernig eigi að elska og verða svo fyrir vonbrigðum lífisins þegar lífið er ekki eins og í lélegri Hollywood-mynd.

En hey, það er samt ekkert að því að fá bensísntöðvarblóm og súkkulaðimola en slíkt á að gleðja en ekki særa.

„Happy fokkings Valentine.“

 

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts