Ég er miðbæjarrotta. Samt nota ég ekki lopatrefla og þverslaufur og finnst kaffiblönduð mjólk í háu glasi ógeðsleg. Þótt mér láti betur að vinna með höfðinu en höndunum þá var ég einu sinni verkamaður í stéttarfélagi, sem hét Dagsbrún, og lærði að drekka kaffi sem slíkur. Svart og sykurlaust. Alveg eins og bændur, sjómenn, járnabindingamenn og píparar gera.

Þrátt fyrir biksvarta karlmennskuna sárna mér ítrekaðar árásir dreifbýlisfólks og annarra framsóknarmanna á okkur borgarbúana. Meintar landeyður sem gera aldrei handtak og svífa í gegnum lífið í sveppavímu með hvalabreim Sigur Rósar í eyrunum. Allt á kostnað landsbyggðarinnar og Elliða í Eyjum.

Við sem fæddumst á höfuðborgarsvæðinu, til þess að lifa þar og að lokum deyja, erum ekkert síður átthagafjötruð en sveitalýðurinn. Ég get litlu breytt um það að ég þrífst illa ef Háskólabíó, Hlemmur Square, Hamborgarabúllan, Mál og menning, Laugarásvídeó og Kaffitár eru lengra frá mér en sem nemur einni strætóferð.

Skilningsleysið á því sem bindur borgarbúann við borgina kristallast í sturlaðri byggðastefnu sem gengur meðal annars út á að selflytja fólk út á land með því að færa vinnustað þess frá höfuðborgarsvæðinu. Þriggja milljóna króna eingreiðsla kemst hvergi nærri því að bæta það andlega tjón sem fylgir ofbeldi af þessu tagi.

Á þessu niðurgreidda og verndartollaða vandamáli er hins vegar sáraeinföld lausn. Allur núningur á milli þéttbýlis og dreifbýlis myndi núllast út ef við flyttum bara höfuðborgina út á land. Höfuðstaður landsins má allt eins vera Eskifjörður eins og Reykjavík. Nú eða Vestmannaeyjar. Og ef höfuðborgin er komin út á land þá er Reykjavík orðin landsbyggð. Dagur B. Eggertsson getur auðveldlega verið bæjarstjóri í útnáranum Reykjavík og látið Elliða eftir að vera borgarstjórinn í Eyjum. Okkur er alveg sama svo lengi sem við fáum að vera í friði í malbikaðri sveitinni okkar.

Fólk myndi að vísu halda áfram að streyma til Reykjavíkurbæjar en það er bara jákvætt þar sem fólksfjölgunin úti á landi væri þá stöðug og höfuðborgarsvæðið fyrir austan, nú eða í Eyjum, yrði sífellt fámennara. Blautur draumur framsóknarfólks myndi rætast.

Stærsti kosturinn við þennan viðsnúning er svo vitaskuld að Alþingi, stjórnarráðið, biskup og stjórnsýslan öll verða að vera í höfuðstaðnum þannig að við myndum losna við allt heila klabbið á Eskifjörð. Nú eða út í Eyjar. Þar geta svo pólitíkusar og embættismenn haldið áfram sínu daglega bulli og þrugli án þess að það klagi upp á okkur í fásinninu í Reykjavíkurbæ.

Lífið hérna á landsbyggðinni gæti orðið svo ljúft. Og skemmtilegt. Ó, Reykjavík. Yndislega vinin í eyðimörk dreifbýlisins, ég elska þig!

 

Þórarinn Þórarinsson

Related Posts