Sara Lind Pálsdóttir (25) sagði brandara tveimur mínútum fyrir fæðinguna:

Sara Lind, oftast kennd við tískuverslunina Júník, nýtur nú lífsins heima við með nýfæddri dóttur sinni. Júník gengur í gegnum breytingar þessa dagana, versluninni í Smáralind hefur verið lokað og nú á að einbeita sér að versluninni í Kringlunni og nýrri vefverslun.

Sara Lind Pálsdóttir, Júník

MÓÐURÁST: Sara segir móðurhlutverkið vera draumi líkast.

Sara Lind Pálsdóttir, Júník

FALLEG FEÐGIN: Krissi og sú nýfædda.

Sara Lind Pálsdóttir, Júník

GULLFALLEG: Alfa Lind er gullfalleg og hefur erft fegurð foreldranna.

Allt gengur vel „Fæðingin gekk ótrúlega vel. Ég var reyndar uppi á spítala í tvo sólarhringa með gervihríðar áður en ég átti. Ég var lengi að fara af stað en um leið og þetta byrjaði þá gekk þetta fljótt og auðveldlega fyrir sig,“ segir tískudrottningin Sara Lind en hún eignaðist sitt fyrsta barn nýlega, heilbrigða 16 marka stelpu.

Mænudeyfing

Sara Lind þáði mænudeyfingu og gekk allt eins og í sögu eftir að deyfingin var byrjuð að virka „Ég fann ekki fyrir fæðingunni eftir að ég fékk deyfinguna, ég var að hlæja og spjalla við kærastann minn á milli rembinga. Hann varð steinhissa yfir þessu, enda heyrt margar hryllingssögur um konur sem eru að fæða. Ég var bókstaflega að segja brandara tveimur mínútum fyrir fæðingu,“ segir Sara og hlær.
Sara var ekki með stóra óléttukúlu og kom því stærð barnsins á óvart. „Hún var 16 merkur og 51 cm sem var miklu meira heldur en við bjuggumst við. Á meðgöngunni var ég dugleg að hreyfa mig og borðaði mjög hollan mat. Það er eflaust vegna þess sem kúlan var svona lítil.“

Pabbinn fann nafnið

Stúlkubarnið hefur fengið nafnið Alfa Lind og segir Sara nafnið hafa komið fljótt upp í kollinn á parinu. „Við ákváðum nafnið sama dag og ég pissaði á óléttuprófið. Krissi fann nafnið Alfa og síðan fannst honum fallegt að seinna nafnið myndi verða það sama og hjá mér. Mér leist vel á þessa hugmynd og þegar ég fékk hana í hendurnar þá passaði nafnið vel við hana.“
Alfa er nú orðin tveggja vikna gömul og allt hefur gengið vel. „Hún er algjört draumabarn. Það eru engin magavandamál og það eina sem hún gerir er að drekka, sofa og horfa á þann sem heldur á henni. Við héldum að þetta yrði miklu erfiðara en þetta hefur eiginlega bara verið gaman og lítið erfitt.“

Sterkara samband

Sara segir að samband hennar og kærastans hafi aldrei verið betra og koma barnsins styrkt sambandið. „Sambandið hefur aldrei verið eins og sterkt og það er núna. Krissi er duglegur að taka næturvaktir í vinnunni og nýtir þá daginn í það að vera með okkur mæðgum. Við erum þó ekki að skipuleggja frekari barneignir á næstu árum heldur ætlum að njóta þess að vera með Ölfu og gefa henni alla athyglina.“

Smáralind í lægð

Sara er einn af eigendum tískuvöruverslunarinnar Júník sem staðsett er í Kringlunni. Nýverið lokuðu þau búðinni sinni í Smáralindinni og opnuðu vefverslun. „Vefsíðan og búðin í Kringlunni ganga mjög vel. Satt best að segja þá er Smáralindin í lægð og það eru búðir að loka þar. Það var ekki mikið að gera þar og við ákváðum þá að loka henni og einbeita okkur að Kringlubúðinni og netversluninni og bjóða þannig upp á betri þjónustu. Ég persónulega myndi segja að Netið sé framtíðin þegar kemur að fataverslun og við fundum vel fyrir því þegar við opnuðum okkar síðu. Við ætlum samt ekki að vera bara á Netinu þar sem okkur finnst mikilvægt að bjóða upp á þá þjónustu að leyfa fólki að koma og máta fötin.“

Séð og Heyrt í hverri viku og alltaf á netinu.

Related Posts