Það er af sem áður var þegar dugði að skutla stórum hrygg í ofn, brúna kartöflur og sjóða upp sósu þegar fjölskyldan kom í páskamat. Allir ánægðir en nú er öldin önnur.

Einn í fjölskyldunni er glútenfrír, borðar að vísu kjöt en ekki með sósu því í henni er hveiti. Honum er bjargað með soðinu og hrísgrjónum í stað kartaflna.

Annar er grænmetisæta en borðar þó kjöt á stórhátíðum en bara lítið.

Þriðji er svo „vegan“ en það þýðir að hann borðar alls ekki kjöt, kartöflur eða sósu. Bara grænmeti. Honum var reddað með taílenskum grænmetisrétti, úr eldhúsi Mogensen, sem hitaður var upp í örbylgju og settur á postulínsdisk til að halda hátíðleikanum.

Svo hófst máltíðin.

Ekki leið á löngu áður en sá glútenfríi fór að teygja sig yfir í brúnuðu kartöflurnar, varlega í fyrstu en svo missti hann sig alveg. „Það eru nú bara páskar einu sinni á ári,“ sagði hann eins og við sjálfan sig.

Grænmetisætan var svo gott sem farin að drekka rjómasósuna en vegan-gesturinn hélt sínu striki og lét taílenska grænmetið á postulíninu nægja.

Segja má að breytilegt mataræði sé gott í sjálfu sér og það er alltaf einhver fegurð í fjölbreytninni. En hér áður fyrr varð fólk að gera sér að góðu það sem upp á var boðið því annað var ekki til. Nýja mataræðið, sem skiptist í ýmsa flokka og gerðir, er líklega skýrasta dæmið um bættan efnahag þjóðarinnar þegar fólk getur ráðið því hvað það setur ekki ofan í sig.

Um næstu jól ætla ég að láta börnin bjóða okkur hjónunum í hátíðarmat því það er miklu einfaldara. Síðasta þegar ég minntist á það, fyrir um ári eða svo, stóð ekki á svörunum sem hljómuðu í kór: „En, pabbi! Það er svo dýrt!“

eir’kur j—nsson

Við sjáum til en allt gerir þetta lífið skemmtilegra eins og Séð og Heyrt vikulega og allan sólarhringinn á Netinu.

 

Eiríkur Jónsson

Related Posts