Fréttir af óveðrinu um síðustu helgi voru magnaðar. Tilkomumeiri en veðrið sjálft og þá ekki síður á Facebook en í fréttatímanum sjálfum.

En Séð og Heyrt var á staðnum ólíkt hinum.

Á sunnudagskvöldið, þegar veðrið átti að vera sem verst, var ritstjóra boðið í mat upp í Grafarvog og þurfti að taka með sér aðra gesti sem treystu sér vart til að keyra í þessu ofsaveðri. Sæbrautin átti að vera varasöm og Grafarvogurinn hreint helvíti.

Á Sæbrautinni sást vart bíll um sexleytið þegar hættuförin hófst en svo virtist sem nánast væri logn. „Þetta er lognið á undan storminum,“ sögðu þau í aftursætinu og áfram hélt ferðin upp auða Ártúnsbrekkuna. Fánar stóðu að vísu stífir út frá flaggstöngum á bensínstöðvum, en héldu.

Í matarboðinu var allt með kyrrum kjörum enda gluggar lokaðir. Þegar eftirréttur var borinn fram, eldsteiktir bananar með rjómaís, heyrðist dynkur á svölunum en þar hafði grill fokið um koll. „Látum það liggja,“ sagði húsráðandi.

Um tíuleytið um kvöldið, þegar veðrið átti að ná hámarki, var haldið heim á leið og þá fauk blautur pappakassi framan á grillið á bílnum en olli engum skaða. Í Ártúnsbrekkunni gekk umferðin vel fyrir sig, svo og á Sæbrautinni, því engir bílar voru á götunum.

Í fréttunum geisaði hins vegar ofsaveður og enn verra var veðrið á Facebook.eir-217x300

Minntist ritstjórinn þá orða gamals læriföður í fréttamennsku sem vildi aldrei birta fréttir af yfirvofandi flensufaraldri í höfuðborginni og sagði:

Þá verða 30 prósent af starfsfólkinu veik á morgun.“

Eiríkur Jónsson

Related Posts