SH-1414-61-97213Ég verð að viðurkenna að ég er ein af þeim sem þykir grasið oft grænna hinum megin. Ég hef oft blótað sjálfri mér í sand og ösku fyrir að hafa ákveðið að fara strax í háskóla í staðinn fyrir að halda út í heim með bakpoka og upplifa hina ótrúlegu fegurð sem heimurinn okkar hefur upp á að bjóða.

Á meðan ég hef horft á eftir vinkonum mínum leggja af stað í hinar ýmsu heimsreisur þá hef ég setið eftir heima með sárt ennið ofan í margra kílóa skólabókum. Ég hef ósjaldan setið heima og gónt á tölvuskjáinn og skrifað upp drög að minni eigin heimsreisu sem hefur innihaldið fögur og framandi lönd. Þessar óskir og þrár hafa kallað upp í mér hálfgerða biturð.

Um helgina fór ég eins og svo oft áður á Siglufjörð þar sem fjölskylda mín býr. Þar er haldin hátíð árlega yfir verslunarmannahelgina sem ber yfirheitið Síldarævintýrið. Á Síldarævintýrinu eru yfirleitt í kringum 5.000 manns sem koma og skemmta sér saman og fræðast um leið um þá merku sögu sem bærinn hefur upp á að bjóða. Ég hef tekið því sem gefnum hlut að fara á staðinn en aldrei opnað augun almennilega ef svo má að orði komast.

Á mánudeginum hélt móðir mín sveitamarkað í gömlum sveitabæ sem hún festi kaup á fyrir um 10 árum síðan. Móðir mín hefur ásamt góðu fólki gert upp þennan bæ sem var áður í eigu afa hennar og ömmu. Þegar ég gekk inn í bæinn, sem ber heitið Steinaflatir, var eins og allt í einu hefðu augu mín opnast fyrir fegurðinni sem hann hefur upp á að bjóða. Ég kom inn og sá allt sem móðir mín hefur gert á síðastliðnum 10 árum og fann svo sannarlega fyrir erfiðisvinnunni sem þarna hefur átt sér stað. Þarna var fólk saman komið til að fá sér kaffi og gæða sér á dýrindis kökum sem amma mín hafði nýlokið við að búa til af sinni alkunnu snilld.

Eftir að hafa opnað augun fyrir fegurðinni sem staðurinn hafði að geyma að innan, gekk ég úti og settist niður með kaffið mitt og sá fjörðinn blasa við mér svona asskoti fallegan. Snjór var enn þá í fjöllunum þannig að fjöllin minntu helst á yfirfull sykurker. Ég sat þarna í örskamma stund og leyfði mér að njóta augnabliksins með pönnukökuna mína og kaffið mitt. Siglufjörður var þessa stundina það fegursta sem ég hafði séð.

Ég held að ég þurfi að fara að hætta að álasa sjálfri mér það að hafa ekki haldið yfir heimsins höf með bakpoka og leyfa mér þess í stað að njóta þess sem landið mitt hefur upp á að bjóða.

Síðan kannski seinna fer ég í heimsreisu en ég er fullviss um að heimurinn á ekki séns í Siglufjörð.

Related Posts