Fólk skráir sig yfirleitt undir réttu starfsheiti í símaskrána en stundum gleymir það að breyta því. Þorsteinn Pálsson, fyrrum ráðherra, hefur nánast alla sína tíð verið skráður blaðamaður í símaskránni.

Hér koma starfsheiti nokkurra Íslendinga sem fyrirfinnast á ja.is.

 

PRINSESSA
Heilar 80 prinsessur má finna í íslensku símaskránni. Ein þeirra er sérstök kraftlyftinga-prinsessa.

 

SNILLINGUR
Með þetta starfsheiti fundust 68 Íslendingar.

 

SKRAPPARI
Níu konur víða um land eru skráðar undir þessu heiti í símaskránni.

 

KAFFIKELLING
Aðeins ein kona ber starfsheitið þrátt fyrir allt þetta kaffi sem þjóðin drekkur …

 

BARDAGAHETJA
Auðvitað eigum við okkar bardagahetju, hún býr á Egilsstöðum og er kona.

 

BARDAGAVÉLMENNI
Tveir karlar, annar í Grafarvogi og hinn á Seltjarnarnesi, eru bardagavélmenni samkvæmt símaskra.is.

 

STJARNA
Fjórar konur eru skráðar sem stjörnur í skránni og ein þar að auki sem goðsögn og stjarna.

 

ÁSTARBLÓM
Kona sem býr á Hellu samkvæmt símaskrá ber þetta starfsheiti.

 

STRÍÐSHETJA
Karl á Reyðarfirði ber starfsheitið stríðshetja.

 

ALFRÆÐINGUR
Heilir þrír alfræðingar finnast á Íslandi. Í 112 Reykjavík, 210 Garðabæ og 105 Reykjavík.

 

LJÓNATEMJARI
Heilir 45 Íslendingar virðast hafa lífsviðurværi sitt af því að temja ljón ef marka má bók bókanna, símaskrána. Mun færri mörgæsatemjara er að finna, eða aðeins þrjá.

 

AFREKSFÓLK
Tvær afrekskonur, þar af önnur í kraftlyftingum, eru skráðar í símaskrána. Þess ber að geta að önnur býr í Kópavogi og hin í Hafnarfirði. Tveir afreksmenn, annar í Reykjavík og hinn á Álftanesi fyrirfinnast líka í skránni.

 

SÉNTILMAÐUR
Heilir fjórir karlar á Íslandi eru séntilmenn, tveir af höfuðborgarsvæðinu og tveir á landsbyggðinni.

 

HERSHÖFÐINGI
Heila þrjá hershöfðingja er að finna í íslenskri símaskrá.

 

TÓNLISTARAPI
Við virðumst eiga einn apa á tónlistarsviðinu og sá býr í Grafarvogi.

 

HJARTADROTTNING
Kona í Skerjafirði er hjartadrottning.

 

HJARTAKNÚSARI
Kona í Grafarvogi er skráð í símaskrána sem hjartaknúsari og hársnyrtinemi.

 

GLEÐIGJAFI
Heilir 20 Íslendingar eru gleðigjafar samkvæmt símaskránni en aðeins tveir eru gleðipinnar og ein kona er snyrtipinni.

 

GEIMFARI
Heilir 35 einstaklingar eru geimfarar, bæði karlar og konur.

 

NORN
Við eigum 14 nornir og 22 galdrakarla en aðeins fjórar galdrakonur og ein þeirra er einnig einkaspæjari.

 

NJÓSNARI
Kona á Egilsstöðum dreifbýli er bæði njósnari og rappari.

Related Posts