Öll erum við að leitast eftir leiðum til að spara:

 

Biddu um launahækkun

134dd89

GÓÐ RÁÐ: Mikilvægt er að hafa í huga að ef á þig er bætt verkefnum eða þú tekur á þig aukna ábyrgð er sjálfsagt að yfirmenn meti það til launa.

Rannsókn Michele Gelfand, prófessors í sálfræði við háskólann í Maryland, sýndi að karlmenn líta á launaviðræður sem skemmtilegan leik meðan konur kvíða þeim og veigra sér við að fara og tala við yfirmenn sína. Karlmennirnir í rannsókn Michelle sögðu að þeir hefðu gaman af því að prútta við yfirmenn og reyna færni sína og tækni í samningum á meðan konurnar sögðu að í þeirra huga væri samtalið við yfirmanninn álíka kvíðavaldandi og ferð til tannlæknis. Sannleikurinn er hins vegar sá að allir sem ná árangri sækja á. Þeir skipuleggja sig, vita hvers virði þeir eru og eru ekki hræddir við að láta það í ljós. Þegar allt kemur til alls er áhættan þess virði því þótt konur spyrji gerist ekkert verra en að yfirmaðurinn segir nei. Láti konur það á hinn bóginn vera naga þær sig í handabökin og eru ósáttar við hægan framgang í starfi. Að endurskoða eigin laun reglulega og skoða hvort ekki sé kominn tími til að sækjast eftir hækkun er sjálfsagður hluti af markmiðsetningu í starfi. Hafðu einnig í huga að ef á þig er bætt verkefnum eða þú tekur á þig aukna ábyrgð er sjálfsagt að yfirmenn meti það til launa.

 

 

cropped-10710222_l

VELDU VEL: Skoðaðu fjárfestingarleiðir og veldu þá sem hentar þér.

Fjárfestu með skipulegum hætti
Fyrir hrun höfðu margir Íslendingar oftrú á verðbréfamarkaðnum og fjárfestu grimmt í fyrirtækjum sem síðan reyndust óstöðug. Þrátt fyrir það eru fjárfestingar besta leiðin til að auka eignir sínar að skapa sér traustari framtíð. Ýmsar fjárfestingarleiðir eru til og margar fullkomlega öruggar. Nefna má að vinsælt var um tíma að fjárfesta í gulli, flestir Íslendingar kaupa að minnsta kosti eina fasteign um ævina og listaverk hafa reynst fjárfestingar sem halda verðgildi sínu og í mörgum tilfellum auka það. Skoðaðu fjárfestingarleiðir og veldu þá sem hentar þér. Það þýðir ekki að bíða eftir hinu fullkomna tækifæri það kemur ekki, byrjaðu heldur smátt og bættu síðan við eftir efnum og ástæðum.

 

 

piggy-bank

GÓÐ REGLA: Margir fjármálasérfræðingar ráðleggja fólki að taka frá 10% af launum sínum um hver mánaðamót og leggja inn á sparnaðarreikning

Sparaðu
Flestir segjast aldrei eiga neinn afgang til að leggja fyrir um hver mánaðamót og það er örugglega alveg rétt. Þegar menn ákveða að spara er betra að byrja á sparnaðinum og láta síðan annað mæta afgangi. Margir fjármálasérfræðingar ráðleggja fólki að taka frá 10% af launum sínum um hver mánaðamót og leggja inn á sparnaðarreikning. Líttu á þennan reikning sem heilagan og snertu hann ekki nema í algjörri neyð. Ef ekki tekst að láta enda ná saman án þess að sækja aftur þessa aura byrjaðu þá á að taka helminginn og síðan helminginn af því sem eftir er. Með því hámarkar þú líkurnar á því að eitthvað verði eftir þegar næsta útborgun kemur. Þótt það hljómi ótrúlega er það samt satt að flestir sem reyna þessa leið eru fljótir að gleyma þeim aurum sem liggja á sparnaðarreikningnum og finna leið til að komast af án þess að nota þá.

 

 

man-on-computer

SKIPULEGÐU ÞIG: Settu upp áætlun fyrir eyðslu hverrar viku og líttu á það sem verkefni að standast hana.

Gerðu fjárhagsáætlun
Margar rannsóknir sýna að markmiðssetning og skipuleg skref í átt að markinu skila fólki ótrúlegum árangri. Hið sama gildir í fjármálum. Settu upp áætlun fyrir eyðslu hverrar viku og líttu á það sem verkefni að standast hana. Passaðu samt að sauma ekki svo að þér að þú hafir ekkert rými til að njóta neins en leggðu hins vegar metnað í að gera sem best. Skoðaðu öll innkaup og veltu fyrir þér hverju þú getur sleppt og hvar þú getur náð niður kostnaði. Ákveddu þína vasapeninga og sparaðu þá ef þig langar að eignast hlut sem kostar meira en nemur þeirri vikulegu upphæð sem þú valdir.

Related Posts