Ef þú ert í vafa um hvaða starf hentar þér best gætir þú prófað að láta litina aðstoða þig við það. Gulur, rauður, blár. Hver þessara lita fellur þér best í geð og hver síst? Svarið við þessu getur haft að geyma hvert draumastarf þitt er.

Þú velur einfaldlega á milli bláa, gula og rauða litarins og þannig kemur í ljós hvernig starf gæti verið best fyrir þig. Það skiptir líka máli hvaða litur af þessum þremur höfðar síst til þín.

Gulur bestur – rauður sístur

Ef guli liturinn fellur þér best í geð og sá rauði síst gæti hentað þér að vinna við móttöku eða sölumennsku. Hvort sem þú velur þér að selja fasteignir, auglýsingar eða fatnað muntu standa þig vel í því. Þú ert afar fær í mannlegum samskiptum og átt auðvelt með að koma auga á þarfir annarra. Gættu þess að missa ekki sjónar á markmiðum þínum. Hlustaðu líka á hugboð þín, þau svíkja ekki. Ef þú þarft að koma á nýjum samskiptum eða tileinka þér nýja kunnáttu er gott að klæðast gulu.

Gulur bestur – blár sístur

Ef gulur er í mesta uppáhaldinu af þessum þremur litum og sá blái í því minnsta eru ýmis stjórnunarstörf góð fyrir þig. Þú yrðir flottur framkvæmdastjóri og góður og vinsæll kennari. Þú hefur áhuga á fólki og hæfileika til að hafa áhrif á skoðanir og jafnvel ákvarðanir annarra. Allt gengur betur ef þú skipuleggur þig vel og hættir ekki við hálfklárað verk.

Blár bestur – gulur sístur

Margt hentar þeim einstaklingi sem heldur mest upp á bláa litinn og síst þann gula. Þú ert athafnamanneskja í eðli þínu og myndir rúlla upp öllu því sem tengist sölumennsku. Þú ert forvitin/n og gætir orðið góð uppfinningamanneskja, einnig yrðir þú fínasti yfirmaður. Þú ert svolítið fljóthuga og átt til að vanmeta þann tíma sem það tekur að gera hlutina vel. Ef þú þarft nýjar hugmyndir eða að taka mikilvægar ákvarðanir er gott að klæðast bláu.

Blár bestur – rauður sístur

Jafnvægi er lýsandi orð yfir þig en þú kannt listina við að koma jafnvægi á og hlutunum í lag þar sem þess er þörf. Ef uppáhaldsliturinn þinn er blár og sá rauði sístur í þínum huga, hefur þú hæfileika til starfa þar sem nákvæmni er þörf. Að setja saman og/eða gera við (t.d. tölvur) gæti hentað þér vel. Einnig starf við umönnun barna eða sjúklinga. Gættu þess að tjá þig skýrt og greinilega – fólk les ekki hugsanir.

Rauður bestur – gulur sístur

Ef uppáhaldsliturinn þinn er rauður og sá guli í minnsta uppáhaldinu af þessum þremur merkir það að þú hafir góða skipulagshæfileika og hættir ekki fyrr en þú ert ánægð/ur með hvert unnið verk. Ekki slæmt að vera fullkomnunarsinni en gættu þess að sýna öðrum þolinmæði þótt þér finnist þeir ekki jafnklárir og þú … Þú gætir orðið flottur lögmaður en flest störf sem krefjast skipulagningar henta þér reyndar mjög vel.

Rauður bestur – blár sístur

Sá sem velur rauðan sem uppáhaldslit og bláan sem sísta litinn af þessum þremur, gæti t.d. orðið flottur ráðgjafi eða tryggingasali, flinkur tannlæknir eða mikill bókhaldsmeistari. Þú brillerar í störfum þar sem smáatriðin skipta máli en passaðu samt að smámunasemin verði ekki til þess að þú missir sjónar á heildarmyndinni. Ef þú þarft að sannfæra einhvern eða framfylgja áætlun er sniðugt að klæðast rauðu.

Related Posts