Kristín Kristjánsdóttir (50) hefur ítrekað unnið til fitnessverðlauna.

Kristín sem varð fimmtug í síðasta mánuði byrjaði seint að keppa í fitness miðað við það sem gengur og gerist en hún var að nálgast fertug þegar hún byrjaði. Hún hefur unnið fjölda Íslandsmeistaratitla en er næstum hætt að keppa hér heima, en keppir þess í stað allt að fimm sinnum á ári á stórmótum erlendis þar sem hún er í heimsklassa og iðulega í einu af fimm efstu sætunum.
Þrátt fyrir að keppnin sé gríðarlega hörð, sportið sé erfitt og krefjandi og líftími keppenda í því stuttur, er Kristín hvergi bangin og alls ekki á leiðinni að hætta, enda er hún í toppformi, með gott bakland og maka sem styður hana alla leið, enda er þar á ferð einn af reyndari þjálfurum Íslands í fitness, Sigurður Gestsson sem hefur sjálfur keppt í sportinu og veit því upp á hár hvað í því felst. Hann styður Kristínu alla leið og þau bæði þjálfa saman og ferðast saman erlendis á keppnismótum Kristínar, en Siggi er sjálfur hættur að keppa.

Myndir 2012 2013 831

BLÁKLÆDD BJÚTÍ: Kristín pósar hér á Demantamótinu árið 2014 og glitta má í Akrópolishæðina fyrir aftan hana.Féllu hvort fyrir öðru í gegnum fitness
„Samstiga í lífinu“
Kristín er fædd og uppalin í Reykjavík, bjó á Selfossi í 20 ár, en er í dag búsett á Akureyri með manninum sínum, Sigurði Gestssyni og tveimur börnum sínum, dóttur, 15 ára, og syni, 22 ára. „Ég náði henni norður,“ segir Siggi. Stórfjölskylda Kristínar er búsett í Reykjavík og segist hún oft sakna hennar, enda tengslin sterk í hennar fjölskyldu. „Systkini mín eiga lítil börn og ég sakna þeirra.“
„Við erum búin að vera saman í 10 ár, en við kynntumst í gegnum sportið,“ segir Siggi. „Við hittumst fyrst á móti í Svíþjóð sem var fyrsta mót Kristínar erlendis. Síðan fórum við á annað mót á Sikiley sama ára og upp úr því fórum við að draga okkur saman.“
Siggi sem er 58 ára og Akureyringur í húð og hár byrjaði mun fyrr í sportinu en Kristín, en hann var byrjaður að æfa 20 ára. Hann er einn reyndasti þjálfari landsins, einn reyndasti fitness þjálfari í Evrópu og er ásamt Einari Guðmann með fitness.is og mótshaldari hér heima fyrir Alþjóðasamband líkamsræktarmanna, en 184 lönd eiga aðild að sambandinu. Siggi hætti sjálfur að keppa árið 2011 , en er enn að þjálfa og þjálfar Kristínu.
„Við erum mjög samstiga í lífinu og höfum lík áhugamál,“ segir Siggi, en hann skilur alveg 100 % hvað felst í sportinu og þeim kröfum sem gerðar eru til keppenda og ekki síst þeim kröfum sem þeir gera til sjálfra síns.

IMG_1029

SAMHENT OG SKOTIN: Kristín og Siggi eru samtaka í öllu sem þau taka sér fyrir hendur og einstaklega skotin hvort í öðru.

Stöðug þjálfun
Kristín er í þjálfun allt árið um kring. Daglega rútínan er þannig að hún fer á fætur kl. 4.40 og æfir í tvær klukkustundir. Síðan fer hún labbandi til vinnu, en hún starfar sem þjónustufulltrúi í Landsbankanum á Akureyri í fullri vinnu. Síðan æfir hún alla vega eina klukkustund eftir að vinnudegi er lokið. „Mér líður ekki vel nema ég hreyfi mig mikið,“ segir Kristín.
Siggi fer að jafnaði með henni í ræktina, en hann hefur einnig útbúið æfingaaðstöðu fyrir þau í bílskúrnum heima, þar sem er hlaupabretti, hjól og stigvél. Siggi sér einnig um eldamennskuna á heimilinu, en í morgunmat er yfirleitt hafragrautur, prótein og egg.

Aðspurður hvort að sukk sé af og til leyfilegt svarar Siggi því til að ef að það er ekki stutt í keppni þá sé alveg svigrúm fyrir smá svindl, ef maður vill og þarf. „Ef þú átt að jafnaði sex daga í góðu lagi þá er í lagi þó að einn dagur sé lakari,“ segir hann.

IMG_5702

HVERDAGSFORMIÐ: Kristín er í dúndurformi þrátt fyrir að vera í fríi frá keppnum, en myndirnar eru teknar í fimmtugsafmælisferðinni.

IMG_0713

Mikið barnalán
Kristín og Siggi eiga samtals sjö börn frá fyrri samböndum en þau reka saman heimili með tveimur yngri börnum Kristínar, dóttur sem er 15 ára og syni sem er 22 ára. Eldri dóttir hennar leggur stund á hjúkrunarfræði í Noregi.
Ekkert barnanna hefur keppt í vaxtarrækt, fyrir utan að þegar yngri dóttir Kristínar var níu ára keppti hún á heimsmeistaramóti barna í fitness í Slóvakíu. Keppnin byggðist á dansi og fimleikum og þrátt fyrir að hún hafi ekki komist á verðlaunapall komst hún í topp 15 af gríðarlega mörgum krökkum.
Börnin leggja eigi að síður stund á íþróttir. Yngri dóttir Kristínar æfir fótbolta og var einnig í fimleikum, meðan sú eldri fer reglulega í ræktina. Sonurinn er síðan búinn að vera í fótbolta frá því að hann var þriggja ára.
Börnin hvetja móður sína óspart áfram og setningar eins og „mamma, þú ferð ekki að hætta núna,“ heyrast ósjaldan að sögn Sigga.
Siggi á fjögur börn frá fyrra sambandi, „son sem er tónlistarmaður, annar er myndlistarmaður, sá þriðji er með fyrirtæki sem sem sérhæfir sig í sportveiði og dóttirin verður stúdent núna 17. júní,“ segir Siggi.

 

Keppir nær eingöngu erlendis

Kristín keppir yfirleitt ekki á mótum hér heima og er það alls ekki gert vegna vanvirðingar, heldur vegna þess að hún er orðin það fullorðin. Hún keppti á mjög mörgum mótum áður fyrr, núna keppir hún bara á þeim allra stærstu. Í flokkum sem eru opnir fyrir allan aldur og einnig í flokknum 45 plús, en Kristín er Evrópumeistari í þeim flokki.

Kristín hefur verið í úrslitum síðan 2010, árið 2014 keppti hún á Evrópumótinu þar sem hún lenti í fimmta sæti, en efstu sex sætin fra á verðlaunapall og seinna sama ár keppti hún á opnu móti sem kallast Demantamótið í Ólympíuhöllinni í Grikklandi og þar vann hún alla aldursflokka og eigin flokk sem er 45 plús. Eftir þann sigur óskaði sambandið eftir því að hún myndi fara yfir í atvinnumannadeildina, en Kristín neitaði því.
„Ég vil gera þetta á mínum eigin forsendum, ekki með neina pressu yfir mér frá öðrum,“ segir Kristín. „Þegar í atvinnumannadeildina er komið er komin skylda á að fara á sýningar, árita myndir og slíkt.“

Keppnin erlendis er gríðarlega hörð og að komast í topp 15 þykir mjög gott. Kristín hefur frá árinu 2010 verið í hópi topp sex. Hún getur keppt eins lengi og hún vill þar sem ekkert aldurshámark er á keppendum, en elsti aldursflokkurinn er 45 ára plús. Hjá körlum eru aldursflokkar skiptir fram eftir öllum aldri og telur Kristín að svo mætti einnig vera með kvennaflokkinn. „Það er ekki sanngjarnt að sextug kona sé að keppa á móti 45 ára gamalli konu. Þær eru svo ólíkar bæði hvað varðar form og húð,“ segir Kristín.

Aðspurð hvort hún kynni sér væntanlega keppinauta fyrir mót, segja þau að svo sé ekki. „Þetta snýst um að koma sér í sitt besta form, því þú ert að keppa á móti jafnvel 30-40 einstaklingum á stærstu mótunum,“ segir Kristín.

„Til keppni mæta að jafnaði bara bestu keppendur hverrar þjóðar, en þetta geta engu að síður verið gríðarlega stórir flokkar,“ segir Siggi. „Þá er fyrirkomulagið þannig að 15 bestu eru valdir, síðan er haldið áfram og 5-6 bestu fara síðan áfram í úrslit og Kristín hefur verið í þeim hópi án undantekninga frá árinu 2010.“

Kristín hefur alltaf keppt án þess að vera „sponseruð“ af fyrirtækjum að undanskildu fyrirtæki Sigga sem hefur rekið líkamsrækt í fjölda ára og sá rekstur stendur á bak við Kristínu. „Það er ólíkt mörgum erlendum keppendum sem búa við sterkt umhverfi og margir af þeim vinna vinnu sem er tengd sportinu, vinna til dæmis við þjálfun og slíkt,“ segir Siggi. „Við höfum frekar kosið að vinna meira, heldur en að sækjast eftir utanaðkomandi styrkjum.“
Kristín tók sér hvíld frá keppni árið 2015 og hefur hún síðan verið ítrekað spurð hvort að hún ætli ekki að koma og keppa aftur, bæði frá sambandinu og öðrum þjóðum. „Bara núna síðast fékk ég fyrirspurn fyrir hálfum mánuði frá Austurríki hvort ég væri ekki að koma aftur að keppa,“ segir Kristín.

LANDAÐI ÞVÍ FIMMTA: Kristín fagnar hér fimmta sæti á Evrópumótinu 2014.

Eins og Ísland fyrir 30 árum.
Þau Kristín og Siggi ferðast mjög mikið saman og hafa gert það lengi. Þau eru ekki mikið fyrir hefðbundna ferðamannastaði og nefnir Siggi sem dæmi staðinn sem þau ferðuðust til núna í lok maí, sem Ítalir sækja mikið til. Þau byrjuðu á að fljúga til Barcelona á Spáni, svo til Napólí á Ítalíu og þaðan til eldfjallaeyjunnar Ischia sem er stærsta eyjan í Napólíflóa. „Þarna eru heitar uppsprettur, brött fjöll og mikill og fallegur gróður,“ segir Siggi. „Eyjan er þekkt fyrir sítrónurækt, strendurnar eru fallegar og lítið af fólki.“
Á eyjunni eru þó nokkrir þokkalega stórir bæir, eins og til dæmis bærinn Ischia. Þau gefa hótelinu sem þau gistu á frábær meðmæli, „það er þrifalegasta hótel sem ég hef komið á,“ segir Siggi. „Það er alveg ofan í fjöru og við heyrðum engan umferðarnið, heldur aðeins sjávarniðinn.“
Á eyjunni er samt mikil umferð og klikkaðir ökuníðingar, enginn í belti og reykt í bílunum, „bara eins og Ísland var fyrir 30 árum,“ segir hann. Siggi segir þau hreyfa sig mikið í fríum og labba mikið og að þannig sjái þau meira og upplifi meira.

IMG_0734

FERÐALAG Á FIMMTUGSAFMÆLI: Kristín og Siggi voru dugleg að ferðast um og skoða eyjuna Ischia sem þau heimsóttu í afmælisferð Kristínar.

IMG_0752 IMG_0885

Áhugamálin snúast um hreyfingu og ferðalög

Kristín leikur sér líka í hlaupum og frjálsum og tók til dæmis þátt í Landsmótinu á Ísafirði nýlega þar sem hún vann gull í þremur greinum: 100 metra, 1000 metra og 7 km hlaupi og einnig var hún í öðru sæti í kúluvarpi. „Við Siggi höfum áhuga á öllum íþróttum og almennri útivist,“ segir Kristín. „Siggi hefur keppt bæði á skíðum og í fótbolta og er á kafi í veiði auk þess sem við förum bæði á gönguskíði.“ Kristín keppti í utanvegahlaupi á Akureyri á síðasta ári og hefur ennig keppt í Reykjavíkurmaraþoninu. „Ég er ekki búin að ákveða hvort að ég keppi í ár, enda tek ég slíkar ákvarðanir oft ekki með löngum fyrirvara,“ segir Kristín. „Ég kann ekkert að hlaupa, en mér finnst það gaman.“

Þau hafa jafnframt mikinn áhuga á ferðalögum og reyna oft að tengja þau keppnum sem Kristín fer á og ferðast til landa sem þau hefðu annars aldrei heimsótt. „Keppnirnar eru vanalega bara einn dagur, eða kannski skráning einn dag og svo keppnin daginn eftir,“ segir Siggi. „Við reynum þá að taka okkur nokkra daga frí í kringum hverja keppni og erum yfirleitt í svona vikufríi í hverri ferð.“
Hann segir þau eiga minningar um margar ótrúlega skemmtilegar ferðir. „Síbería var sem dæmi mjög sérstök, einnig boðsmót 2012 sem prinsessan í Búlgaríu bauð völdum keppendum á, en Kristín lenti í þriðja sæti þar. Þetta boð hefur aðeins verið haldið einu sinni og fylgdist fjölda sjónvarpsstöðva með því. Einnig má nefna Sikiley sem er fyrsta heimsmeistaramótið sem við fórum á saman.“
Harður eigin húsbóndi.

Þrátt fyrir að Kristín sé í toppformi og ekki undir pressu frá einum né neinum um hvar og hvenær hún eigi að keppa, beitir hún sjálfa sig ákveðinni pressu og mætir ekki á mót nema hún sé í sínu besta formi.
„Kristín er í 90-95 % formi en hún vill ekki fara á mót nema hún sé í 100 % formi,“ segir Siggi. „Það er snúið að koma sér í toppform á hennar aldri, en hún er komin í þann standard að hún verður að standa undir honum og halda sér á toppnum.“

En af hverju byrja konur í fitness um fertugt og það með jafnmiklum krafti og Kristín gerði. „Mér líður svo mikið betur, þetta er bara partur af minni rútínu, ég er rosa kassamanneskja,“ segir Kristín. „Ég veit eiginlega ekki hvað gerðist,“ segir hún og hlær. „Ég var engin afreksmanneskja í íþróttum sem barn eða unglingur, en ég fiktaði við fullt og prófaði flestar greinar.“ Þjálfari sá Kristínu lyfta í líkamsræktarstöð á Selfossi, pikkaði í hana og spurði hvort að hann mætti koma henni í gegnum eitt mót. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta var, sem er sennilega ástæðan fyrir því að ég sagði já,“ segir Kristín.

Árangur Kristínar hefur smitast yfir til nokkurra vinnufélaga, „bæði að borða hollt og hreyfa sig,“ segir hún. „Ég hef einnig aðstoðað nokkra vinnufélaga við að koma sér í gang.“ Kristín hefur lítið tekið að sér þjálfun, einfaldlega vegna anna. „En ég hef þó tekið eina og eina konu í þjálfun og þetta er eitthvað sem ég gæti hugsað mér að vinna við í framtíðinni, þegar róast hjá mér,“ segir hún.

Kristín vill ekki segja að hún sé hætt, en hún er búin að vera í nokkuð langri pásu núna, en hún segir að af þeim konum sem hafa keppt hingað til séu ekki margar sem eru mikið eldri en 45 ára.

„Mér líður langbest í æfingafötum og á fullt af þeim. Sigga finnst leiðinlegt að ég eigi ekki marga kjóla, enda finnst honum konur fallegar í kjólum,“ segir Kristín og hlær þar sem hún er í daglegri morgungöngu sinni fyrir vinnu í bongóblíðu fyrir norðan.

IMG_5466

ALGJÖR FITNESSDEMANTUR: Mynd tekin á Demantsmótinu 2014, en Kristín er öðrum konum hvatning um að það er aldrei of seint að byrja að æfa.

Lestu Séð og Heyrt alla daga.

Related Posts