Vinnudagar geta orðið ansi annasamir og stundum er eins og við gleymum að anda, hvað þá að borða. Öll eigum við rétt á okkar hádegismat sem getur verið allt að klukkustund að lengd. Í amstrinu hættir okkur til að grípa í fljótheitum máltíð, jafnvel borða hana við skrifborðið okkar og fara svo strax aftur að vinna. Þó svo að það sé í lagi endrum og sinnum ætti maður ekki að leggja það í vana sinn. Það er mikilvægt að brjóta upp daginn og hvíla aðeins hugann. Hér eru nokkrar góðar leiðir til að nýta hádegismatinn í fleira en bara mat.

Farðu í göngutúr:

Stuttur göngutúr er góð leið til að brjóta upp strit vinnudagsins. Í næsta nágrenni við vinnustað þinn eru margar fallegar gönguleiðir og því er vert að fara út og kanna svæðið. Hafðu augun opin fyrir áningarstöðum þar sem þú getur sest niður, virt fyrir þér útsýnið og tæmt hugann. Ef þú vilt nýta tímann til fulls þá getur þú hlaðið niður hljóðbók á snjallsímann þinn og hlustað á hana á meðan þú gengur. Eftir göngutúrinn kemur þú endurnærð að skrifborðinu þínu aftur og munt áorka meira en ella.

Nærðu hugann líka

Á Netinu má finna fjölmargar vefsíður helgaðar stuttum og fróðlegum fyrirlestrum. Ein slík síða er á vegum TED-samtakana sem halda ráðstefnur út um allan heim þar sem gestafyrirlesarar ræða efni sem eru þeim hugleikin. Umfjöllunarefnin eru mjög fjölbreytt; allt frá afbrigðilegu kynlífi skordýra að minnkandi mætti sýklalyfja. Allir geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi og það besta er að flestir fyrirlestrarnir eru í kringum fimmtán til tuttugu mínútur.

Heyrðu í vinum

Í dag getum við fylgst með vinum okkar dagsdaglega á Facebook, „like-að“ og skipst á athugasemdum. Það jafnast samt ekkert á við að heyra rödd þeirra og hlæja saman. Ef vinir þínir vinna í næsta nágreni við þig hví ekki skipuleggja að hittast í hádeginu og borða saman, hvort sem það er á veitingastað eða bara eitthvert gott nesti. Ef þú getur ekki hitt vinina þá getur alltaf prufað að skipuleggja gamaldags símtal í hádeginu einu sinni í viku. Þú getur þá nýtt tækifærið og farið í göngutúr á meðan þið spjallið.

Dekraðu við þig:

Stundum þarf maður á dálitlu dekri að halda og hví ekki brjóta upp vinnudaginn þannig. Á mörgum snyrtistofum er að finna snyrti- og nuddmeðferðir sem taka minna en þrjú korter, svo sem fót- og handsnyrtingu, snöggt andlitsbað eða svæðanudd. Þetta er góð leið til að lífga upp á tilveruna um miðbik vikunnar og líta sérstaklega vel út þegar helgin gengur í garð.

Slakaðu á með hreyfingu

Margir nýta hádegismatinn til að skreppa í líkamsræktina og hreyfa sig aðeins. Ef þú vilt ekki fara út úr húsi þá er lítið mál að stunda létta líkamsrækt i á skrifstofunni, til að mynda jóga, það eina sem þú þarft er föt til skiptana og jógadýna. Jafnvel þeir sem eru ekki spenntir fyrir hreyfingu hafa gott af því að stunda dálítið jóga til að slaka og stunda hugleiðslu.

 

Texti: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts