landscape-1435093186-rbk-swimsuitsforall-11

Snyrtivörufyrirtæki verja miklum tíma og peningum í rannsóknir á appelsínuhúð

Það er mesti misskilningur að appelsínhúð sé eingöngu bundin við offitu eða sé á einhvern hátt óeðlileg. Appelsínuhúð er nefnilega normið, en talið að um 85% prósent kvenna, þá bæði grannar og feitar, hafi appelsínuhúð að einhverju leyti.

Appelsínuhúð lýsir sér sem sérstök áferð húðarinnar sem minnir helst á appelsínubörk og þaðan er nafnið einmitt komið. Þessi áferð stafar af byggingu vefja í undirhúðinni. Þetta er afbrigði af fituvef þar sem bandvefstrefjar skipta vefnum upp og mynda ójafnt, bylgjótt lag. Því þykkara sem fitulagið er því ójafnara getur það verið.

Þessi fituvefur fyrirfinnst aðallega hjá konum og er oft mest áberandi á svæðinu efst á lærum. Karlmenn geta líka fengið appelsínuhúð en í mun minna mæli þar sem munur er á uppbyggingu fituvefja þeirra og húð þeirra yfirleitt þykkari svo bylgjurnar sjást síður.

Ýmsar skýringar hafa verið settar fram á því hvað veldur appelsínuhúð en þó er ekki vitað með vissu hver orsökin er. Appelsínuhúð virðist að einhverju leyti vera háð erfðum. Konur sem eru þá með ákveðin appelsínuhúðargen verða fyrst varar við hana á unglingsárunum og svo eykst hún með aldrinum eftir því sem undirhúðin þynnist.

Margt bendir til þess að kvenhormónið estrógen komi líka við sögu við myndun appelsínuhúðar. Því til rökstuðnings hefur verið nefnt hversu appelsínuhúð er sjaldgæf meðal karlmanna og hvernig hún myndast oft hjá konum í kringum gelgjuskeiðið, stuttu eftir barnsburð eða hjá þeim sem taka getnaðarvarnarpilluna.

Snyrtivörufyrirtæki verja miklum tíma og peningum í rannsóknir á appelsínuhúð og hvernig megi ráða bót á henni en því miður hefur enn ekki verið hægt að sýna fram á neina töfralausn. Konum standa til boða alls konar krem, olíur og skrúbbar sem eiga að geta bætt áferð húðarinnar. Slíkar vörur gera húðinni margt gott, gera hana mýkir, sléttari og áferðarfallegri, þau geta hins vegar aðeins mildað áhrif og ásýnd appelsínuhúðarinnar en ekki fjarlægt hana alveg.

Talið er að heilbrigt líferni, hollt mataræði og regluleg hreyfing, ásamt örvun blóðrásar og sogæðakerfis, sé vænlegast til árangurs. Best væri ef við gætum allar bara horfst í augu við og sætt okkur við þessa sérstöku áferð. Hættum að líta á appelsínuhúð sem galla sem verður að leiðrétta. Hugsum vel um líkama okkar heilsunnar vegna.

Góð ráð til að halda húðinni stinnri og fallegri

1. Takmarkaðu sólböð

Ef þú ert lengi í sólinni geta skaðlegir geislar hennar haft slæm áhrif á þétt- og teygjanleika húðarinnar og hún gæti slappast enn frekar. Því er gott að takmarka sólböðin eða nota góða sólarvörn. Fyrir utan sólina er heldur ekki gott að vera í heitu, klórblönduðu vatni.

2. Drekktu mikið vatn

Með því að drekka vatn viðheldur þú raka húðarinnar sem verður ekki bara heilbrigðari, heldur líka mýkri og fallegri. Vatnsdrykkja hefur að auki ótal marga aðra heilsufarslega ávinninga.

3. Borðaðu hráa fæðu

Í hráum mat er mikið af vítamínum og bætiefnum sem glatast við eldun. Reyndu að bæta hráum ávöxtum, grænmeti eða fiski (sushi) við mataræði þitt. Þú munt án nokkurs vafa sjá verulegan árangur á húðinni.

4. Farðu í nudd

Það er alltaf gott að fara í nudd og til er sérstakt sogæðanudd sem hjálpar við að gera húðina stinnari. Það kemur blóðrásinni af stað sem eykur hreysti og þéttleika húðarinnar. Það fyllir þig að auki vellíðan að fara í nudd og streitan hverfur eins og dögg fyrir sólu.

5. Skrúbbaðu þig

Að nota skrúbb daglega í sturtunni hjálpar þér að losna við dauðar húðflögur. Það eykur líka blóðflæði húðarinnar og með tímanum þéttleikann. Til eru ýmsar tegundir af góðum skrúbbum og margir þeirra ilma dásamlega, sem er ekki slæmur bónus. Einnig er mjög gott að stunda svokallaða þurrburstun en þá er sérstakur bursti strokinn eftir húðinni áður en farið er í bað eða sturtu.

 

Texti: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts