Katrín Jónsdóttir (41) og Ágúst Karl Ágústsson (43) gera það gott í Noregi:

Hjónin Katrín Jónsdóttir og Ágúst Karl Ágústsson eru í hópi fjölmargra Íslendinga sem yfirgáfu Ísland í hruninu og fluttu til Noregs. Þau fóru út með tvær hendur tómar og viljann að vopni. Í dag reka þau fyrirtæki og hafa komið sér vel fyrir í Grimstad sem er fallegur strandbær. Velgengni þeirra vakti athygli konungsfjölskyldunnar sem sendi þeim bréf.

Hörkudugleg „Þegar við fengum bréfið sent þá héldum við að þetta væri eitthvert grín þangað til hringt var í okkur frá skrifstofu konungs. Við vorum valin til að vera með í bók sem er gefin út til að fagna 25 ára valdaafmæli konungs. Við eigum að segja frá því hvernig okkur líkar að búa í Noregi og hvernig Norðmenn koma fram við okkur,“ segir Ágúst Karl Ágústsson, nýbúi í Noregi.

Konungshjónin, Haraldur og Sonja drottning, fagna 25 ára setu sem konungshjón og er margt gert til að minnast þeirra tímamóta. Bókaútgáfan er hluti af hátíðarhöldunum en þar er innlegg frá ýmsum einstaklingum og þjóðfélagshópum um líf þeirra í Noregi.

Brev%20til%20Katrin%20Jonsdottir.pdf-1

FÉKK BRÉF FRÁ NORSKA KÓNGINUM: Katrín Jónsdóttir hefur látið til sín taka í Noregi og vakti það athygli í norsku hirðinni. Hún fékk boð um að vera með í hátíðarútgáfu í tilefni af 25 ára valdaafmæli Haraldar konungs. „Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvert grín en svo var þessu fylgt eftir með símtali frá höllinni, þá vissi ég að þetta væri alvöru.“

 

„Kata var valin því þeim þótti hún sérstaklega drífandi og jákvæð manneskja sem þorir að láta slag standa. Norðmenn voru sérstaklega sáttir við að hún flutti ekki til landsins til að lifa á bótum heldur rauk hún af stað og stofnaði tvö fyrirtæki og Norðmönnum þykir það nett, eins og þeir segja.“

Ekki í boði að gefast upp Hjónin ráku fyrirtækið Gamanmyndir, sem var ljósmynda- og myndvinnslustofa á þremur stöðum, en þegar kreppan skall á var ekki lengur grundvöllur fyrir rekstrinum. Þau fluttu til Noregs árið 2010 og ákváðu að hefja nýtt líf.

fólk í noregi

GOTT LÍF Í NOREGI: Hjónin Ágúst Karl og Katrín með dætrum sínum, Elfu Sól og Gabríelu Rós. Fjölskyldan nýtur alls þess besta sem útvistarparadísin Noregur hefur upp á að bjóða.

„Systir mín bjó í Noregi og henni líkaði vel og við ákváðum því að slá til. Við leigðum hús í litlum bæ sem heitir Varhaug og er ekki langt frá Stavanger. Gósi fór í algjöra skítavinnu að moka möl og saga steypu og þar sem við vorum mállaus þá var ekki um margt að velja. En þegar við höfðum náð tökum á málinu þá opnuðum við ljósmyndastofu í Varhaug sem varð mjög vinsæl á stuttum tíma því við vorum með margar nýjungar sem við höfðum verið að nota á Íslandi og þekktust ekki hér. Fólk kemur víð að frá Noregi í myndatöku.“

 

Ágúst Karl og Katrín skelltu sér bæði í nám, lokuðu ljósmyndastofunni og fluttu til Stavanger og þaðan til Kristansand eftir að hafa fengið atvinnutilboð sem ekki var hægt að hafna. Áður en langt um leið voru hjónin komin í fulla vinnu við að hanna og teikna krana hjá stóru alþjóðlegu fyrirtæki, National Oilwell Varco, en um sex þúsund manns starfa hjá því í Noregi.

 

„Nú höfum við samt sem áður skipt um vinnu þar sem við ákváðum að stofna eigið fyrirtæki sem heitir Creative Norway AS, við erum búin að koma okkur vel fyrir í Grimstad og erum með skrifstofur hér. Við erum aðallega að vinna með arkitektaverkefni og tækniteiknun og vöruhönnun. Ég stefni að því að fara meira út í vöruhönnun í framtíðinni en ég er með grunn í því, hugmyndin er sú að stofna eigin hönnuarlínu þegar fram líða stundir,“ segir Katrín sem er ekki á leiðinni heim til Íslands. „Við festum kaup á fínu húsi hér síðasta sumar og við gerum ráð fyrir að vera hér næstu 100 árin enda yndislegt að vera hér í Grimstad,“ segja hjónin Katrín Jónsdóttir og Ágúst Karl Ágústsson sem hafa látið drauma sína rætast.

 

fólkið í noregi

KONUNGSHJÓN Í 25 ÁR: Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning fagna 25 ára valdafmæli í ár.

Related Posts