Kristín Eiríksdóttir

SPENNANDI: Sokkabandið frumsýnir nýtt íslenskt verk, Hystory, eftir Kristínu Eiríksdóttur. MYND: Sigtryggur Ari

Kristín Eiríksdóttir (33) gengur til liðs við Sokkabandið:

Sokkabandið frumsýnir nýtt íslenskt verk, Hystory, eftir Kristínu Eiríksdóttur. Leikkonurnar Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Birgitta Birgisdóttir fara með hlut verkin í sýningunni. Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson, bróðir Arndísar, sér um tónlist og leikstjórn er í höndum Óla Egils.

Spennandi ferli „Þetta er verk sem fjallar um vinkonurnar Beggu, Lilju og Dagnýju en þær hafa ekki hist í 20 ár. Einn daginn ákveður Dagný að tími sé kominn til að þær komi aftur saman og býður þeim heim til sín í kaffi þar sem þær reyna að ræða fortíðina en það er ekki alltaf svo einfalt,“ segir Kristín Eiríksdóttir, höfundur verksins

Kristín segir ferlið við að skrifa verkið hafa verið spennandi og skemmtilegt og margt hafi komið á óvart. „Að skrifa leikrit er opnara ferli en mörg önnur fyrir rithöfund. Ég er alltaf í samtali við fólk og ekki eins einangruð. Ferlið hefur verið lærdómsríkt og gott og ég hafði mjög gott af þessu þar sem ég er félagslyndur einfari.“

SH-hystory

FLOTTAR: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Birgitta Birgisdóttir fara með hlutverkin í sýningunni.

Hugmyndin að verkinu hefur vakað með Kristínu síðan hún var unglingur. „Verkið hefur tengingar við unglingsárin og á maður auðvelt með að samsvara sig því. Þetta er verk sem ég vil ekki segja of mikið um því það er upplifun fyrir áhorfendur að skilja það með sínu nefi,“ segir Kristín og glottir.

Hystory er þriðja leikritið sem Kristín kemur að en fyrsta verkið sem hún skrifar ein og er í fullri lengd. „Leikkonurnar höfðu samband við mig og vildu að ég myndi skrifa leikrit. Ég tók ákaflega vel í það. Þetta var frábær tímasetning og þetta var eitthvað sem ég hafði mikinn áhuga á að gera.“
Kristín segir að útkoman sé afar ánægjuleg og bíði hún spennt yfir því að fara á frumsýninguna. „Þegar maður skrifar leikrit þarf maður að passa sig að sjá ekki of mikið fyrir sér og halda ekki of fast í hugmyndirnar. Þegar skrifað er fyrir leikhús þá er þetta opið form og ég bara hluti af heildarniðurstöðunni.“

 

Related Posts