Vilhjálmur Árnason (32) og Sigurlaug Pétursdóttir (34) eru nýgift og hamingjusöm:

Það voru hamingjusöm brúðhjón sem brostu til gesta sinna á tröppum Dómkirkjunnar síðastliðinn laugardag en þá gekk Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, að eiga unnustu sína til tæpra tíu ára, Sigurlaugu Pétursdóttur. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur gaf þau saman. „Þetta er bara enn meiri hamingja,“ segir Vilhjálmur nýkvæntur, aðspurður hverju brúðkaupið hafi breytt um sambandið.

Tappatogaralaus „Við kynntumst í útskriftarveislunni minni úr lögregluskólanum í desember 2006,“ segir Vilhjálmur. Veislan fór fram í Kópavogi, heima hjá Villa og vinum hans sem leigðu saman. Sigurlaug, sem bjó þá í Reykjavík, var hjá vinkonu sinni í næsta húsi. „Silla kom yfir til að fá lánaðan tappatogara hjá mömmu. Mamma tók á móti henni, kom með hana til mín og sagði: „Hér er útskriftargjöfin þín,“ segir Villi, eins og hann er kallaður meðal vina. Villi er frá Sauðárkróki en Silla er úr Grindavík.

IMG_4125

SKÁL FYRIR FRAMTÍÐINNI: Brúðhjónin alsæl eftir athöfnina.

„Við byrjuðum að búa saman í Hafnarfirði en fluttum til Grindavíkur 2008 og höfum búið þar síðan,“ segir Villi. Hann bað Sillu á Þjóðhátíð árið 2009, „bara í brekkunni þegar brekkusöngurinn var,“ segir Villi. Þau hafa hins vegar frestað brúðkaupinu þrisvar sinnum því þrisvar sinnum hefur Silla orðið ófrísk. En þau eiga saman þrjá hressa stráka sem eru tveggja, fjögurra og sex ára.

Þau héldu þó áfram að finna dag fyrir stóra daginn og pöntuðu sal og prest fyrir ári síðan og í þetta sinn gekk allt upp, eða allavega flest allt. „Gítarleikarinn puttabraut sig viku fyrir brúðkaupið,“ segir Villi. Það gekk þó greiðlega að finna staðgengil og í kirkjunni sáu Grindvíkingarnir Tómas Guðmundsson, Bjarni Kristinn Ólafsson og Arney Sigurbjörnsdóttir um tónlistarflutning. Það var einnig heimamaður sem hafði veg og vanda að veitingunum í veislunni, Hjálmar Örn Erlingsson.

IMG_6120

BEÐIÐ EFTIR BRÚÐINNI: Villi klæddist bláu, enda Sjálfstæðismaður. Hann beið þolinmóður við altarið með föður sínum, Árna Egilssyni.

IMG_6134

GLÆSILEG: Faðir brúðarinnar, Pétur Gíslason, leiddi hana inn kirkjugólfið.

IMG_6149

IMG_6192

LOKSINS GIFT: Það tókst í fjórða sinn að fullkomna ráðahaginn.

IMG_6202

Með blóðuga fingur korteri fyrir brúðkaup

Það munaði svo engu að brúðguminn sjálfur gæti ekki mætt en á fimmtudeginum fyrir brúðkaup, þegar þau voru að undirbúa og skreyta salinn, datt Villi í stiga og skar sig á tveimur puttum. „Það blæddi töluvert en sem betur fer var þetta ekki fingurinn sem skiptir máli,“ segir Villi og hlær.

Stóri dagurinn gekk því eins og í sögu, eða eins og Villi segir: Fall er fararheill. „Strákarnir okkar komu með hringana og stóðu sig eins og hetjur,“ segir Villi. Hann gaf sinni heittelskuðu morgungjöf, hring frá Jóni og Óskari og andlitsbað. Og Silla gaf unnustanum Daniel Wellington-úr og hálsmen með fótsporum sona þeirra.

IMG_4187

MORGUNGJÖF VILLA: Fótspor sona þeirra munu alltaf vera nálægt hjarta Villa.

Silla pantaði sér brúðarkjólinn að utan og vöndurinn er frá Möggu Brá á Suðurlandsbraut í Reykjavík. „Það var síðan vinkona hennar, Sigríður Anna Ólafsdóttir, sem greip vöndinn,“ segir Villi.

Veislan var haldin í Eldborg í Svartsengi og var gleði þar fram undir morgun. Meðal skemmtiatriða í veislunni var að Hallgrímur Ólafsson leikari samdi lag og texta um brúðhjónin og frumflutti í veislunni. Vilhjálmur Egilsson, rektor á Bifröst, föðurbróðir Villa, tók einnig Bítlalag í veislunni. En Alþingismaðurinn fyrrverandi er þekktur fyrir það.

IMG_3342

HJARTA: Brúðhjónin mynda hér hjarta meðan dómkirkjuprestur gefur þeim góð ráð.

IMG_3355

HJÓNAKOSS: Það er engin hjónavígsla án brúðkaupskossins, jafnvel fleiri en eins.

IMG_3405

FJÖLSKYLDAN: Villi, Silla og synirnir þrír. Strákarnir voru til sóma alla athöfnina.

 

„Svo var líka eitt sem við þurftum að bregðast við vegna brúðkaupsins,“ segir Villi. „Það var EM-leikur Íslands og Ungverjalands og því var settur upp risaskjár í hliðarsal sem var skreyttur með íslenska fánanum út um allt og kallaður EM-höllin, þangað brunuðu veislugestir beint eftir athöfnina og svo komum við 20 mín. eftir leikslok til veislunnar. Annars hefðu allir mætt of seint í veisluna,“ segir Villi.

Það voru hamingjusöm brúðhjón sem héldu síðan heim til Grindavíkur og vörðu brúðkaupsnóttinni á Geo hótel.

Fram undan er síðan ferð á Þjóðhátíð. „Við höfum oft farið en bara tvisvar saman, þegar ég bar upp bónorðið og svo í fyrra. Í ár ætlum við að fara og taka strákana okkar með,“ segir Villi nýkvæntur og hamingjusamur.

IMG_6166

RITHÖFUNDURINN: Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir, kennari og rithöfundur, er eiginkona Vilhjálms, föðurbróður Villa.

IMG_6183

ÞINGMAÐURINN: Flokksfélagi Villa, Ásmundur Friðriksson, og eiginkona hans, Sigríður Magnúsdóttir, voru íbyggin á svip að athöfn lokinni.

IMG_6153

LEIKARINN: Vinur brúðhjónanna Hallgrímur Ólafsson leikari frumflutti lag þeim til heiðurs. Unnusta hans er Matthildur Magnúsdóttir lögfræðingur.

IMG_6188

RÁÐHERRANN: Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og maður hennar, Guðjón Ingi Guðjónsson, samglöddust Villa og Sillu. Guðjón var veislustjórinn.

IMG_6172

BÍTLAAÐDÁANDINN: Vilhjálmur Egilsson, fyrrum þingmaður og föðurbróðir Villa, er þekktur fyrir Bítlasöng sinn.

Lestu Séð og Heyrt alla daga.

Related Posts