FEGURÐIN Í LJÓTLEIKANUM

Hallgerður Hallgrímsdóttir (30) rannsakar íslenskan hversdagsleika:

 

Listamaðurinn Hallgerður Hallgrímsdóttir heldur úti sýningu þar sem hún er með samansafn eilífra augnablika, fjalla sem ekki gjósa, daga sem endurtaka sig og óræðra andlita. Sýningin á að sýna fábrotnu kyrrðina og fólkið sem í henni býr.

Öðruvísi „Það eru kanónur í íslenskri ljósmyndun sem eru búnir að taka hið epíska eða konfektkassann eins og ég kýs að kalla það svo ég ákvað að snúa mér í aðra átt,“ segir Hallgerður um sýningu sína, Hvassast úti við sjóinn sem er í Ásmundarsal á Skólavörðuholti.

Erfitt að velja

Það er mikið úrval mynda á sýningunni og segir Hallgerður að hún hafi tekið sér góðan tíma í það að velja myndir á sýninguna. „Það að velja er aðalmálið, það er voða lítið mál að taka góðar myndir en aðalvinnan að setja þær saman rétt,“ segir Hallgerður og bætir við að það séu þúsund myndir á bak við hverja mynd á sýningunni.

Hamfarir á póstkorti

Einn partur af sýningunni er röð póstkorta sem sýnir náttúruhamfarir. „Mér finnst fyndin hugmynd að láta þetta ákveðna fyrirbrigði á póstkort. Það er eitthvað fyndið við það að finnast náttúruhamfarir athyglisverðar en samt það hversdagslegar að þú getir sent ömmu þinni þetta. Ég fæ þessar epísku myndir lánaðar frá okkar færustu ljósmyndurum, þetta eru einstakar myndir sem enda á pínulitlu póstkorti og eru síðan fjölfaldaðar. Þarna erum við að fjölfalda íslenskt landslag,“ segir Hallgerður og brosir.

Margmenni

Það var mikill fjöldi á sýningunni og segir Hallgerður viðbrögðin hafa farið fram úr sínum björtustu vonum. „Ég var mjög upp með mér, það var æðislegt hvað það komu margir. Það var líka gaman að sjá hversu margir virtust tengja við myndirnar og náðu að upplifa stemninguna sem ég reyni að skapa. Það er greinilega fleiri en ég sem leita að fegurðinni í ljótleikanum og nenna ekki að skoða endalausar myndir af sólarlögum,“ segir hún og hlær.

Related Posts