Kuldakaflinn í veðrinu er orðinn það langvarandi að hann er farinn að hafa áhrif á móralinn á vinnustöðum.

Allir dagar byrja á umkvörtunum um veðrið og enda þannig líka rétt áður en fólk fer heim.

„Ég ætla að flytja til Kúbu og hætta þessu,“ segir einn og bætir svo við: „Maður gerir ekki annað en að skafa bílrúður frá morgni til kvölds.“

„Þetta er svipað og á Siglufirði veturinn ´74. Þá var frost fram í maí,“ segir önnur og allir taka undir.

„Þetta er ljóta landið,“ segja svo allir í kór.

En allt er þetta misskilningur. Af tvennu illu er kalt veður betra en heitt – svo ekki sé minnst á fegurðina sem felst í frostinu.

Hvað er fallegra en að fylgjast með ofsaveðri út um glugga í hlýrri stofu þar sem kertalogar blaka á borði og kökuilmur úr ofni bætir um betur.

Svo ekki sé minnst á að verða veðurtepptur. Komast ekki neitt og hafa fyrir því góða afsökun vegna þess að allt er á kafi í snjó, stormurinn bylur þannig að hvín í ljósastaurum sem blikka jafnvel vegna rafmagnstruflana.

Toppurinn er svo að fara í sund og láta blautt hárið frjósa í heita pottinum því ekkert er meira hressandi en að þíða það aftur með því að fara í kaf og koma svo upp aftur og láta það frjósa á ný. eiríkur jónsson

Vonda veðrið gengur yfir eins og annað og það er eins og Séð og Heyrt.

Gerir lífið skemmtilegra þó aðeins gusti á köflum.

Eiríkur Jónsson

Related Posts