Aron Teitsson (27) er Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum:

(Tekur 185 kg í bekk!)

 

Það fara fáir í sporin hans Arons þegar kemur að kraftlyftingum en hann er einn okkar allra fremstu. Í vetur lenti hann í þriðja sæti á heimsmeistaramóti í Rússlandi og er núna á förum til Suður-Afríku á heimsmeistaramót. Aron er í sautjánda sæti á heimslista yfir sterkustu kraftlyftingamenn heims í -83 kg flokki. Svo fann hann líka ástina sína í kraftlyftingunum.

 

Brons í Rússlandi! Aron býr á Seltjarnarnesi í íbúð sem hann hefur nýlega tekið í gegn svo um munar; enda smiður að mennt og hann sérlega handlaginn. Hann starfar um þessar mundir hjá ThorShip í Hafnarfirði og lætur vel af þeirri vinnu. Kraftlyftingarnar eiga þó hug hans allan og fengum við að heyra aðeins af lífi hans. „Í kraftlyftingum er keppt í þremur greinum; hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu en svo eru stundum mót eingöngu í bekkpressu. Í vetur keppti ég í fyrsta sinn á alþjóðlegu kraftlyftingamóti í Rússlandi þar sem ég lenti í þriðja sæti í bekkpressu í mínum gamla flokki sem er -83 kg. Í Suður-Afríku er ég að fara á heimsmeistaramót í klassískum kraftlyftingum þar sem keppt er í öllum þremur flokkunum og ekki er notast við neinn búnað nema belti, úlnliðsvafninga og neopren-hitahlífar á hnén en núna keppi ég í -93kg flokki. Með mér fara þau Elín Melgar, úr Gróttu og Dagfinnur Ari, frá Stjörnunni. Þetta er heljarinnar ferðlag sem stendur yfir í um tíu daga og kostar dágóðan skilding. Ég hef fengið styrki frá Seltjarnarnesbæ, Kraftlyftingafélagi Gróttu og UMSK sem rennur upp í ferðakostnað, sprautur og fleira en það má alveg koma því á framfæri ef einhverjir vilja styrkja keppendur þá má hafa samband við félagið okkar sem er mjög öflugt og margar keppnir á döfinni. Skemmst er að minnast þess að Fanney Haukdóttir, félagi minn, varð heimsmeistari fyrir nokkrum dögum,“ segir Aron kátur.

Framfarir
Aron segir að bekkpressan sé hans sterkasta grein og uppáhaldsgrein líka en hann hefur hlotið marga titla á stuttum ferli. Þar á meðal hefur hann verið kosinn íþróttamaður ársins á Seltjarnarnesi í tvígang og íþróttamaður Gróttu einu sinni. Einnig hefur hann unnið nokkra titla eins og Íslandsmeistaratitil í klassískum kraftlyftingum, Íslandsmeistaratitil í kraftlyftingum, bikarmeistaratitil í kraftlyftingum og Íslandsmeistaratitil í réttstöðu svo eitthvað sé nefnt. Það mesta sem ég hef tekið í hnébeygju á kjötinu er 245 kg, í bekkpressu á kjötinu 185 kg og í réttstöðulyftu á kjötinu 287,5 kg. Svo stefni ég auðvitað að því að bæta mig í Suður-Afríku. Ég æfi að jafnaði fimm sinnum í viku en fyrir mót minnka ég þetta niður í fjögur skipti í viku þremur vikum fyrir mót. Þetta er það eina sem ég æfi; ég fer í vinnuna og beint á æfingu og svo er farið snemma að sofa. Það fer nú lítið fyrir djammi, það þýðir ekki ef maður ætlar að ná árangri,“ segir meistarinn sem er hreystin uppmáluð.

Hrikalegur
„Það var eiginlega tilviljun að ég fór að æfa þessa íþrótt. Ég var í Gróttu í fótbolta og var þá stundum að lyfta með en hætti svo að nenna og þetta datt út. Lenti svo í því að fara úr axlarlið og þá varð það partur af enduræfingunni að fara lyfta aftur. Það hafði mjög góð áhrif og ég varð fljótur að ná mér. Svo var það eitt sinn að ég er að lyfta í World Class á Seltjarnarnesi að Ingimundur Björgvinsson, kraftlyftingamaður og styrktarþjálfari með meiru, var eitthvað að fylgjast með mér í bekkpressu og leist greinilega vel á taktana því að hann bauð mér að koma á kraftlyftingaæfingu. Þar lét hann mig taka hnébeygju í fyrsta sinn og tók ég 170 kg. Þetta var í desember 2011 og í janúar 2012 keppti ég á fyrsta mótinu mínu. Ég hafði satt best að segja ekki grun um að ég væri svona sterkur, vissi að ég var hraustur en þetta kom á óvart. Ingimundur leiðbeindi mér mjög vel þarna í byrjun með tæknina og helstu atriði og við urðum fínir vinir upp frá því, erum að stúdera fræðin og lyftum stundum saman. Ég væri ekki búinn að ná þessum góða árangri ef Ingimundar nyti ekki við, hann er okkar fremsti kraftlyftingaþjálfari og massakraftlyftingamaður sjálfur. Ég er ævarandi þakklátur honum fyrir að hafa tekið eftir mér þarna um árið og haft trú á mér. Velgengni Kraftlyftingafélagsins Gróttu er alfarið honum að þakka,“ segir Aron.

Ástfanginn
„Það sem kraftlyftingarnar gera fyrir mig er að ég fæ mikla og góða útrás við iðkunina og sömuleiðis hef ég mikið yndi af því að stúdera allt í kringum þetta, fylgist með keppinautunum, skoða myndbönd, lesa mér til og er alltaf að bæta og laga. Síðast en ekki síst er skemmtilegur og gefandi félagsskapur í kringum þetta en það er sérlega mikil gróska í félaginu mínu Gróttu. Svo er kærastan mín, Ragnheiður Gyða Stefánsdóttir laganemi, líka farin að keppa sem gerir þetta enn skemmtilegra. Við kynntumst við hnébeygjurekkann og höfum farið saman að keppa á móti á Ísafirði og í Njarðvík og við æfum saman. Þetta er ástríða hjá okkur báðum,“ segir Aron.

Hnetusmjör og canneloni Ömmu Pálu
„Til að hafa nægu orku fyrir þessi átök sem lyftingarnar eru þarf ég að huga vel að orkuríku mataræði. „Ég er borða hafra á morgnanna og svo er það hnetusmjör í hádeginu en ég borða 140 grömm af því í hádeginu alla daga vikunnar. Þetta er besta orkan og ég finn mun ef ég ekki fæ mér. Auglýsi hér með eftir hnetusmjörsstyrk; klára margar krukkur á mánuði. Svo er það t.d. flatkaka með kindakæfu í kaffinu og Hámark með og ávextir inn á milli. Á kvöldin er ekki slæmt að detta inn í mat hjá mömmu sem gerir ægilega góðan heimilismat. Já og amma líka, hún gerir besta canneloni sem til er en það er uppáhaldið mitt og líka tiramisu-ið hennar,“ segir Aron sem borðar líka vel af kjöti og grænmeti með. „Mamma mín, Nives Waltersdóttir Ferrua, og amma mín, Pála H Jónsdóttir, eru mínir dyggustu stuðningsmenn í lyftingunum og lífinu, ótrúlega flottar báðar tvær,“ segir Aron sem er einn fimm bræðra en tveir bræðra hans hafa verið að lyfta líka.

Óperur og Ramstein
Fótbolti er ofarlega á listanum yfir áhugamál Arons. „Liverpool er mitt lið. Svo er ég algjör græjudellukarl og legg til dæmis mikinn metnað í að geta hlustað á tónlist í alvöru græjum. Ég hlusta á óperur og sinfóníur í bland við Ramstein og allskonar tónlist; eiginlega allt nema rapp. Það getur verið hressandi að hafa Mozart í eyrunum í bekkpressunni,“ segir Aron sem lærði á túbu þegar hann var yngri. En hvað gerir Íslandsmeistarinn í sumarfríinu? „Ég verð að æfa fyrir Norðurlandamótið í kraftlyftingum í búnaði sem haldið verður í Njarðvík um miðjan ágúst. Það verður bara lyftingadeit hjá okkur parinu alla daga, ætli maður fari ekki aðeins út á land og njóti íslenska sumarsins,“ segir einn flottasti og sterkasti íþróttamaður landsins að lokum. Fyrir áhugasama má nefna að Kraftlyftingafélag Gróttu er með síðu á Facebook og er einnig á Instagram; grottakraft þar sem hægt er að fylgjast með afrekum Arons og félaga.

Related Posts