Þjónustan sú besta sem gestir hafa upplifað:

Clink Restaurant hefur verið kosið besta veitingahúsið í Cardiff í Wales af notendum vefsíðunnar TripAdvisor. Veitingahúsið tilheyrir ríkisfangelsinu í borginni og er rekstur þess í höndum hóps af föngum sem afplána dóma sína þar.

Fjallað er um málið á fréttaveitunni Orange. Þar segir að Clink hafi notið mikilla vinsælda frá því að það var opnað fyrir almenning fyrir tæpum þremur árum síðan. Í könnun TripAdvisor segir að Clink hafi verið talið það besta af tæplega 1.000 veitingahúsum í Cardiff. Talsmaður fanganna segir að þeir séu alveg í skýjunum með þennan árangur.

Í umsögnum á TripAdvisor kemur fram að gestir Clink eru einkum ánægðir með þjónustuna á staðnum. Hún sé yfirleitt mun betri en þeir hafi kynnst á nokkru öðru veitingahúsi.

Clink býður upp á morgun- og hádegismat. Fangarnir sem reka það eru 30 talsins og fá þeir sem svarar til um 2.800 kr. fyrir 40 tíma vinnuviku. Tekið er fram að grautur er ekki á matseðlinum.

Related Posts