Leikkonan og framleiðandinn Þóra Karítas Árnadóttir lærði leiklist í Bretlandi og hefur sýnt góð tilþrif í sjónvarpsþáttum eins og Ástríði og glansar nú í sjónvarpsauglýsingum. Hún rekur einnig ungt og öflugt kvikmyndafyrirtæki.

 

HVER ER FYRSTA ENDURMINNING ÞÍN? Að læra að hjóla með pabba og bróður mínum á bláu hjóli sem pabbi gaf mér í fimm ára afmælisgjöf með bleikar griplur í anda break-æðis og blárri ullarpeysu.

Að lita með mömmu sem kenndi mér að það væri hollt að lita út fyrir þegar ég vildi hætta og byrja upp á nýtt.

Sakleysislegt valhopp á gangstétt á Leifsgötu, litað metnaðarfullu markmiði sem var að koma alls ekki við strik.

HVERNIG VAR FYRSTI KOSSINN? Spennuþrunginn og að nokkrum dögum liðnum sagði ég við mótleikara minn þessa gullnu setningu: „Ég held að við ættum bara að vera vinir“.

HVERNIG ER ÁSTIN? Ljúf og mögnuð kærleiksrík nánd.

HVER ER DRAUMABÍLLINN? Er verið að sponsera þetta? Bíddu ég þarf að ná góðum díl áður en ég svara. Ég fæ reyndar að keyra ansi flottan bíl í sjónvarpsseríunni Sense 8 eftir Wachowski-systkinin sem sýnd verður á Netflix vorið 2015.

Í HVERJU FINNST ÞÉR BEST AÐ SOFA? Rúmi.

BUBBI EÐA SIGURRÓS? Bubbi í Sigur Rós.

HVER ER BESTA ÁKVÖRÐUN SEM ÞÚ HEFUR TEKIÐ? Að flytja til London og gefast upp fyrir listagyðjunni var ein sú allrabesta.

HVAÐA SÖGU SEGJA FORELDRAR ÞÍNIR ENDURTEKIÐ AF ÞÉR? Að það hafi bara tekið fimm mínútur að fæða mig og pabbi hafi þurft að sækja ljósmóðurina fram á gang og sannfæra hana um að stundin væri komin. Ljósmóðirin náði bara að setja á sig annan hanskann en þegar ég skaust út hélt pabbi að ég væri ekki á lífi því hann hafði aldrei séð nýfætt ungbarn og ég var bláhvít af fæðingarsubbi, með naflastrenginn vafinn um hálsinn. Þetta fór nú bara allt vel að lokum en mamma þurfti að berjast fyrir að fá mig strax í fangið því ég fæddist í Bretlandi á sama spítala og Díana fæddi prinsana sína og hefðirnar alls ekki þær sömu og hér.

HVER ER ÞINN HELSTI VEIKLEIKI? Að vilja lifa mörgum lífum í einu.

HVER ER MESTI TÖFFARI ALLRA TÍMA? Vigdís Gríms.

HVAÐA BÓK EÐA KVIKMYND FÉKK ÞIG SÍÐAST TIL AÐ TÁRAST? The Bluest Eyes eftir Toni Morriso og Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

EF ÞÚ ÞYRFTIR AÐ BÚA Í SJÓNVARPSÞÆTTI Í MÁNUÐ HVAÐA ÞÁTT MYNDIRÐU VELJA? Downtown Abbey.

HVERJU ERTU STOLTASTUR AF AÐ HAFA VANIÐ ÞIG AF? Að hætta að segja djók í öðru hverju orði og: „æ eða ég veit það ekki“ þegar ég hef tjáð hug minn.

ÁTTU ÞÉR EITTHVERT GÆLUNAFN? Það virðist vera eitt af þessu sem ég á eftir að upplifa.

HVAÐ ER NEYÐARLEGASTA ATVIK SEM ÞÚ HEFUR LENT Í? Úff, þau eru svo mörg. Nú síðast í morgun ætlaði ég að mæta á fund klukkan tíu og fannst ég ansi góð að vakna kortéri áður en vekjaraklukkan hringdi og hélt að klukkan væri kortér í níu. Ég taldi mig hafa nógan tíma til að hafa mig til og var heima í rólegheitum í klukkutíma þar til ég kveikti á símanum og áttaði mig á því að klukkan var orðin ellefu og vekjaraklukkan biluð.

HVAR KEYPTIRÐU RÚMIÐ ÞITT? Það fylgdi með íbúðinni sem ég keypti 2008 og leit þá út eins og Dolly Parton hefði valið sér það út í búð.

BIKINÍ EÐA SUNDBOLUR? Sixtís sundbolur.

SÍLIKON EÐA ALVÖRU? Er þetta önnur bílaspurning? Ef þú ert að spyrja mig út í fjöðrun veit ég að það getur reddað málunum að skipta um sílikonkúplingu fyrir viftuspaðann en ég hef aldrei heyrt um gervisílikon. Alvöru virkar alltaf betur.

 

Related Posts