Hörður Eydal (51) með fljúgandi flott hobbí:

 

Hörður Eydal er Akureyringur, sonur tónlistarhjónanna ástsælu, Helenu Eyjólfsdóttur og Finns Eydal. Æskudraumur Harðar var að verða flugmaður sem aldrei varð en í staðinn hefur Hörður safnað öllu sem tengist flugi og þá aðallega litlum flugmódelum.

 

Stórkostlegt safn Ég hef haft mikinn áhuga á flugvélum síðan ég var fjögurra ára. Það var viðtal við mig í Vikunni árið 1976 og þá lýsti ég því yfir að ég ætlaði að verða flugmaður,“ segir Hörður Eydal en heimili hans er undirlagt af yfir 200 flugvélamódelum sem hann hefur safnað að sér síðastliðin sex ár.

Sjaldgæf og verðmæt

Hörður Eydal Hörður Eydal

Í UPPÁHALDI: Airbus-vélarnar eru í miklu uppáhaldi hjá Herði enda sjaldgæfar og fallegar.

Hörður ætlaði sér að gera flugið að atvinnu sinni en náði aldrei að komast svo langt. „Ég var meira fyrir snjósleða og stelpur þannig að flugið vék fyrir því. Ég hef alltaf séð eftir því en ég er heppinn að eiga góða vini á Facebook sem eru flugstjórar hjá Icelandair og þeir eru duglegir að gefa mér ótrúlega sýn í þetta draumastarf.“

Mörg af módelunum sem eru í eigu Harðar eru sjaldgæf og nærri ófáanleg í heiminum. „Ég veit ekki hvað safnið er metið á mikið en það eru nokkur módel hérna sem eru metin á 30 þúsund þannig að þetta eru einhver fleiri hundruð þúsund. Síðan má ekki gleyma öllum aukahlutunum sem ég á, eins og sjaldgæfum límmiðum og bókum, sem eru líka metnir á ágætisslikk,“ segir Hörður stoltur.

Mundaði kjuðana með Gulla Briem

ALÞJÓÐLEGIR PENNAR: Hörður á flott safn af flugpennum alls staðar að úr heiminum.

ALÞJÓÐLEGIR PENNAR: Hörður á flott safn af flugpennum alls staðar að úr heiminum.

Hörður er sonur tónlistarfólksins Helenu Eyjólfsdóttur og Finns Eydal. Eins og margir vita gerði Helena lagið Hvítir mávar ódauðlegt og Finnur spilaði á klarínett, saxófón og bassa, bæði með hljómsveit Ingimars Eydal, bróður síns, eða sinni eigin hljómsveit. Hörður hefur þó ekki fetað sömu spor og foreldrarnir.

„Ég lærði á trommur fyrir sunnan þegar ég var tvítugur og keypti mér sett. Ég fékk Gulla Briem til að kíkja á mig og segja mér hvort það væri eitthvað varið í þetta hjá mér. Mér til mikillar gleði hrósaði hann mér í hástert. Eftir þetta þá buðu pabbi og Ingimar mér að koma og spila með þeim í Sjallanum. En því miður var það sama sagan og með flugið, ég var of upptekinn af skemmtanalífinu og snjósleðum. Ég hef séð eftir þessu alla mína ævi en það þýðir ekki að dvelja of lengi við það,“ segir Hörður og brosir.

Fúll út í Flugsafnið

VÍGALEG: Hér er Boeing 787 Dreamliner í öllu sínu veldi.

VÍGALEG:
Hér er Boeing 787 Dreamliner í öllu sínu veldi.

Nú er safnið orðið það stórt að Hörður stendur frammi fyrir því að þurfa að koma hluta af safninu fyrir annars staðar.

„Ég hafði hugsað mér að bjóða Flugsafni Íslands eitthvað af þessu en ég veit ekki hvort ég treysti þeim. Fyrir nokkrum árum lánaði ég þeim dýrmætar handbækur sem höfðu að geyma upplýsingar um allar Boeing-þoturnar. Síðan þegar ég ætlaði að fá þær aftur þá fundu þeir þær ekki og könnuðust ekkert við þetta. Þannig að ég er hálffúll út í Flugsafnið,“ segir Hörður dapur í bragði.
Hörður á, eins og fyrr sagði, yfir 200 módel en á þó sín uppáhaldsmódel. „Ég er hrikalega stoltur af Boeing 757-módelinu mínu, það er mjög sjaldgæft og ég er einn af sex manns sem eiga svona módel. Síðan er Boeing 787 Dreamliner  í miklu uppáhaldi sem og Concord-módelin mín. Annars á ég mjög erfitt með að gera upp á milli þeirra þar sem ég er í skýjunum með safnið í heild.“

Related Posts